Breiðablik í Vestamannaeyjum

Einstök smíð

Gísli J. Johnsen (1881-1965) athafnamaður í Eyjum lét byggja Breiðablik árið 1908, og var smíðin einstök á margan hátt. Allur viður í þaki var t.a.m. geirnegldur, og þá eru svalir á húsinu, þar sem kveikt var ljós, sem sást víða á myrkum kvöldum á Heimaey fyrir daga raflýsingar. Gísli lét setja vatnssalerni í hús sitt, og var hann fyrstur í Eyjum, eins og á mörgum öðrum sviðum, til þess að koma „kamrinum“ fyrir innandyra sem vakti hneykslan sumra í bænum! Einnig lét hann flísaleggja „kamarinn“, og var hver flís handmáluð. Fleira var einstakt inni í húsinu, en að utan var stærð þess og hæð mest áberandi. Á tímum lágreistra kota úr torfi og grjóti, timbri, járni og tjörupappa, var Breiðablik eins og höll eða herragarður úr ævintýri, sem gnæfði hátt til himins, þar sem land hækkar í átt að Helgafelli. Breiðablik gegndi síðar ýmsum hlutverkum, hýsti m.a. nokkra skóla um árabil og birtist landsmönnum sem aðsetur aðalpersóna í geysivinsælum sjónvarpsþáttum, Sigla himinfley. Í dag er Breiðablik í upprunalega hlutverki sínu, íbúðarhús, reyndar ekki eins áberandi og fyrrum, umkringt háum húsum s.s. Sjúkrahúsi Vestmannaeyja við bakgarðinn.

Athafnamaður og frumkvöðull

Gísli J. Johnsen er einhver mesti athafnamaður og frumkvöðull, sem eyjarnar hafa fyrr og síðar alið. Hús hans, Breiðablik, er birtingarmynd stórra, nútímalegra hugmynda hans í byggingalist, en hugsjónir Gísla og athafnagleði settu mark sitt á ótal önnur svið mannlífs í Eyjum á seinni hluta 19. aldar og fyrstu áratugum þeirrar 20. Ungur hóf Gísli verslunarrekstur og bauð þar með aldagamalli, danskri verslunareinokun byrginn, en hún fór endanlega á kné árið 1917. Hann rak mikla útgerð á fyrstu áratugum vélbátaútgerðar í Eyjum, þegar grunnur var lagður að mestu breytingum í atvinnusögu eyjanna frá upphafi byggðar. Gísli lét byggja bryggjur og verslunarhús, þegar hann eignaðist land við Lækinn, þar sem verið hafði mesta athafnasvæði á Heimaey um aldir í verslun og útgerð.  Hann var frumkvöðull að vél- og tæknivæðingu í útgerð og fiskvinnslu, flutti m.a. inn fyrsta vélbátinn árið 1904, og fjölda báta á næstu árum, sem hann varð meðeigandi að þeim mörgum.  Gísli setti fyrstu manna talstöð í bát sinn Heimaey 1927 og stóð að komu fyrstu frystivéla til Eyja sem og hausinga- og flatningsvéla. Athafnasemi hans var nánast óstöðvandi, hann átti stóran þátt í að reisa fyrsta vélfrystihús á Íslandi 1908, fyrstu fiskimjölsverksmiðjuna í landinu 1912, og var í fararbroddi fyrir því að koma á símasambandi við meginlandið 1911, keypti fyrstu prentsmiðjuna til Eyja 1917 og gaf út vikublað, reisti fyrstu vélvæddu fiskvinnslustöð í landinu, Eilífðina svokallaða, 1924, stofnaði fjölmörg hlutafélög, sat í bæjarstjórnum, beitti sér fyrir byggingu nýs sjúkrahúss og svo mætti lengi telja. Veldi Gísla J. Johnsen hrundi í kreppunni miklu um 1930, en hann hafði flutt til Reykjavíkur tíu árum fyrr og rak þar lengi fyrirtæki í eigin nafni, sem einkum seldi vélar í báta.

Gagnfræðaskóli

Frá og með árinu 1934 var Gagnfræðaskólinn í Eyjum til húsa í Breiðabliki. Litlar heimildir eru til um unglingafræðslu í Vestmannaeyjum, þar til í bæinn flutti maður frá Austfjörðum, Þorsteinn Þ Víglundsson og hóf slíka fræðslu árið 1927.  Nemendur voru 9 talsins, en þeim átti eftir að fjölga svo um munaði næstu áratugina og eignast varanlegt skólahúsnæði undir kröftugri stjórn Austfirðingsins.  Gagnfræðaskólinn var stofnaður árið 1930 samkvæmt lögum um gagnfræðaskóla í kaupstöðum og var hann fyrstu árin til húsa í Barnaskólanum, þar sem smíðakennsla fór síðar fram. Samkvæmt lögunum átti starfstími gagnfræðaskóla að vera minnst 6 mánuðir og mest 7 og hálfur, en skólinn í Eyjum mátti víkja frá þessari reglu vegna aðal bjargræðis- og annatíma ársins, vetrarvertíðarinnar.  Var oft erfitt að halda úti skólastarfi, þegar mikill fiskur barst á land og fækkaði nemendum t.a.m. um helming á árabilinu 1941-1943, en þá var kaupgjald hátt og fleiri og fleiri hendur vantaði í fiskvinnsluna. Á fyrstu 30 árum Gagnfræðaskólans voru nemendur, sem hófu nám í skólanum, fæstir fyrsta veturinn 1930-1931, eða 28 en flestir veturinn 1945-1946, 92, en oft voru mikil afföll í nemendahópunum.  Mikið félagslíf var á árum skólans í Breiðabliki, málfundir, skemmtifundir, útgáfa blaðs, skugga- og kvikmyndasýningar, dansæfingar og útiíþróttir.  Þá var mikill kraftur í bindindisfélagi skólans og stúkustarfi enda skólastjóri óþreytandi bindindisfrömuður og kappsamur í meira lagi.  Ýmsar nýjungar voru reyndar á þessum árum s.s. rekstur vinnuskóla árið 1938 til þess að koma til móts við erfitt arvinnuástand kreppuáranna.  Gagnfræðaskólinn flutti árið 1952 í nýtt húsnæði sunnan Landakirkju, þar sem nú er Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar