Oddsstaðir eystri í Vestmannaeyjum
Hér bjó Eyþór Þórarinsson (1889-1968), kaupmaður, sem fyrstur flutti inn bíl til Vestmannaeyja árið 1918. Vakti þetta frumkvæði Eyþórs að vonum mikla athygli hjá eyjaskeggjum, sem flykktust niður á Bæjarbryggju, þegar bíllinn kom til Eyja. Hann var af tegundinni Maxwell, blóðrauður að lit, stór og sterklegur með palli og tvöföldum, slöngulausum gúmmíhringjum að aftan og eilítið mjórri hringjum að framan. Eftir nokkurt brambolt við að koma bílnum upp á bryggjuna, var hann settur í gang. Miklar drunur fengu viðstadda til þess að hrökkva í kút og reykjarstrókur stóð úr bílnum að aftan. Var honum síðan ekið upp bryggjuna í gegnum mannþröngina, og smá spöl eftir Formannssundi í fylgd gólandi krakkahópa. Daginn eftir var bæjarbúum boðið í útsýnisferðir gegn gjaldi suður að Norðurgarðshliði og var staðið á pallinum. Eyþór seldi bílinn árið eftir, enda komst hann lítið um vegaleysur Heimaeyjar. Annar minni bill var keyptur ári seinna, sem reyndist betur og um 1920 fjölgaði bílum samfara miklum vegabótum. Bíllinn tók smám saman yfir hlutverk hand- og hestvagnanna, vélakrafturinn sigraði vöðvaaflið. Oddstaðabæir stóðu austur á eyju í nágrenni Kirkjubæja, en allt þetta svæði hvarf undir hraun í Heimaeyjargosinu 1973.