Pallarnir í Vestmannaeyjum

Simmi koló, nafar.blog

Pallarnir voru fiskvinnsluhús, sem stóðu norðan við núverandi Strandveg, þar sem Fiskiðjan var,  Ísfélag Vestmannaeyja og Miðstöðin sf. eru í dag. Húsin, sem jafnan voru kölluð krær í Eyjum, voru byggð á staurum þannig að sjór flæddi undir þau í flóði. Þau fóru að rísa þarna um aldamótin 1900 og eftir nokkra áratugi var komin þétt, byggð húsa með þröngum sundum og skotum, þar sem gert var að fiski daga og nætur yfir vertíðina frá áramótum og fram að vertíðarlokum 11. maí. Var fiskinum ekið á handvögnum frá bryggjum í pallahúsin, sem þótti drápsvinna, og allur úrgangur á sama hátt fluttur austur á Urðir. Yfirleitt átti hver útgerð sitt hús, og oftast voru nokkrir saman um hvern bát. Fyrstu áratugir seinustu aldar voru miklir uppgangstímar í Eyjum í kjölfar vélbátaútgerðar, en um miðja öldina urðu Pallarnir smám saman að víkja fyrir stórum, vélvæddum fiskverkunarhúsum. Umhverfi Pallanna hefur verið umturnað og ekkert, sem minnir lengur á þá. Jarðvegi hefur verið rutt fram í sjó yfir klappir og kletta og steinsteypt hús byggð, þar sem sjór lék áður um stólpa og staura pallahúsanna.  Í ævisögu sinni, Í verum, sem kom út 1941, lýsir Theódór Friðriksson vertíðarlífinu í Eyjum þar sem krærnar og Pallarnir á 2. og 3. áratug seinustu aldar koma við sögu.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar