Rif á Snæfellsnesi

Mynd Salvör Gissurardóttir

Rif er þorp á vestanverðu Snæfellsnesi milli Hellissands og Ólafsvíkur. Rif er forn verslunarstaður og veiðistöð og var um tveggja alda skeið stærsta sjávarþorp á Íslandi.

Þéttbýlisstaður á 15. öld

Á 15. öld varð Rif upphafsstaður saltfiskverkunar á Íslandi þegar Englendingar byggðu hér salthús og hófu að salta fisk í kör. Hér var góð höfn frá náttúrunnar hendi en breyting á farveg árinnar Hólmkelu eyðilagði höfnina í kringum aldamótin 1700 með þeim afleiðingum að verslun og útgerð fluttust til Ólafsvíkur. Aðrar þekktar fornar veiðistöðvar á vestanverðu Snæfellsnesi eru Arnarstapi, Hellnar, Búðir, Gufuskálar og Dritvík.

Björnssteinn

Hér felldu enskir kaupmenn Björn Þorleifsson hirðstjóra frá Skarði árið 1467 þegar hann reyndi að hindra ólöglega verslun Englendinga. Kona Björns, Ólöf ríka Loftsdóttir frá Skarði, lét þau orð falla að eigi skyldi gráta Björn bónda heldur safna liði og hefna hans, sem hún og gerði. Enn sést í stein þann sem sagt er að Björn hafi staðið við þegar hann var nístur (rekinn í gegn). Heitir steinninn Björnssteinn og árið 1964 var samþykkt á Alþingi þingsályktunartillaga um að varðveita steininn.

Hafnarbætur á 20. öld

Árið 1950 samþykkti Alþingi lög um fjárveitingar til hafnarframkvæmda á Rifi og á næstu árum og áratugum voru gerðar miklar endurbætur á höfninni. Í dag er ágæt höfn á Rifi og útgerð blómstrar enn á ný á Rifi.

Smella hér til að skoða götumynd á google.com

Skildu eftir svar