Þingholtsstræti 17

Heimili Þorsteins Gíslasonar ritstjóra

Á þessari lóð stendur timburhús sem byggt var árið 1882. Árið 1905 fluttu hjónin Þorsteinn Gíslason (1867-1938) ritstjóri og skáld og eiginkona hans Þórunn Pálsdóttir (1877-1966) í húsið. Segja má að húsið hafi verið einskonar „Unuhús“ síns tíma því þangað vöndu stjórnmálamenn, skáld og aðrir menningarvitar komur sínar og var þá oft tekist á um pólitík og listastefnur. Meðan Þorsteinn var ritstjóri Lögréttu hafði blaðið aðsetur í húsinu. Einnig var bókabúð Þorsteins staðsett í húsinu síðustu ár hans. Þórunn lét nokkuð að sér kveða í kvenréttindabaráttu þess tíma og stóð meðal annars að stofnun Kvenréttindafélags Íslands árið 1907 í húsi Bríetar Bjarnhéðinsdóttur handan götunnar. Þorsteinn og Þórunn eignuðust alls sex börn þ. á m. Gylfi Þ. Gíslason (1917-2004) prófessor og ráðherra og Vilhjálm Þ. Gíslasons (1897-1982) útvarpsstjóra. Af barnabörnum þeirra hjóna má nefna Þorstein Gylfason (1942-2005) heimspeking, Vilmund Gylfason (1948-19883) alþingismann, Þorvald Gylfason (f. 1951) prófessor, Þór Vilhjálmsson (1930-2015), prófessor og hæstaréttardómara og séra Auði Eir Vilhjálmsdóttur. Þorsteinn Gíslason lést á heimili sínu þann 20. október 1938. Þórunn lést árið 1966.

Vefnaðarvöruverslun Nönnu

Rétt fyrir miðja öldina settu systkinin Nanna Þ. Gíslason (1906-1967) og Baldur Þ. Gislason (1909-1979), börn Vilhjálms og Þórunnar, á fót hannyrðaverslun í húsinu og ráku hana saman þar til Nanna lést árið 1967. Hafði Nanna búið í húsinu alla sína ævi nema þann tíma sem hún lagði stund á hannyrðanám í Kaupmannahöfn á yngri árum. Baldur hélt rekstri búðarinnar áfram til dauðadags árið 1979. Eftir fráfall Baldurs var húsið áfram nýtt undir verslunarrekstur, vinnustofur listamanna o.fl.

Kvennakirkjan

Síðan 1997 hefur kvennakirkjan haft aðsetur hér í Þingholtsstræti 17. Kvennakirkjan var stofnuð af konum sem sóttu námskeið í kvennaguðfræði í Tómstundaskólanum vorið 1991 undir stjórn séra Auðar Eirar Vilhjálmsdóttur (f. 1937), dóttur Vilhjálms Þ. Gíslasonar útvarpsstjóra og fyrstu konunnar sem gegnir starfi prests á Íslandi. Markmið kirkjunnar er að vera vettvangur kvenna sem vilja hittast til að njóta styrks og gleði kristinnar trúar.

 

Skildu eftir svar