Þverá í Laxárdal

Þverá er bær og kirkjustaður í Laxárdal í Suður-Þingeyjarsýslu, annexía frá Grenjaðarstað. Hér stendur torfbær að norðlenskri gerð en í þeirri gerð torfhúsa snúa bakhúsin þvert á framhúsin. Á Þverá hafa einnig varðveist gömul útihús og eru tvö fjárhús (lambhús) friðuð.

Kirkjan

Hér er einnig kirkja sem byggð var árið 1878 úr tilhöggnu móbergi með kalklími. Altaristöflu kirkjunnar málaði Arngrímur málari en foreldrar hans bjuggu um tíma á Auðnum, næsta bæ við Þverá. Var bærinn reistur á seinni hluta 19. aldar af Jóni Jóakimssyni bónda á Þverá. Bærinn hefur verið í vörslu Þjóðminjasafns Íslands síðan 1968.

Fyrsta kaupfélagið

Hér fæddist Benedikt Jónsson (1846-1939) sem jafnan var kenndur við bæinn Auðnir. Benedikt var mikill athafnamaður og einn helsti skipuleggjandi kaupfélagsins sem hér var stofnað árið 1882 auk þess sem hann skrifaði mikið um samvinnu- og félagsmál. Prófessor Sveinn Skorri Höskuldsson (1930-2002) skrifaði bókina Benedikt á Auðnum sem kom út árið 1993.

Hulda

Skáldkonan Unnur Benediktsdóttir Bjarklind (Hulda) var dóttir Benedikts og konu hans Guðnýjar Halldórsdóttur. Unnur gaf alls út 18 bækur en þekktasta ljóð hennar er án efa verðlaunaljóðið Hver á sér fegra föðurland sem frumflutt var á lýðveldishátíðinni á Þingvöllum þann 17. júní 1944 við lag eftir Emil Thoroddsen.

Skildu eftir svar