Vesturhús í Vestmannaeyjum
Vesturhús
Vesturhús stóðu í austurhluta Heimaeyjar, þar sem land fór hækkandi í hlíðum Helgafells og skiptust í tvær bújarðir, a.m.k. samkvæmt elstu heimildum um jarðaskipti í Vestmannaeyjum. Fjöldi íbúa hefur alið manninn í Vesturhúsum og margar kynslóðir lifað á þeim hlunnindum sem fylgdu búsetu þar. Athyglisvert er, að sagan geymir nöfn nokkurra einstaklinga, sem bjuggu í Vesturhúsum á 20. öldinni, lifðu þar tíma mikilla breytinga í samfélaginu og áttu sem einstaklingar þátt í að koma þeim á og jafnvel leiða að nokkru s.s. í frumatvinnuháttum eyjaskeggja, sjávarútvegi og landbúnaði. Þá hýstu Vesturhús einnig frumherja í nýrri atvinnugrein, afþreyingar og skemmtunar, sem átti ekki síður eftir að hafa áhrif á menningu eyjaskeggja.
Línuveiðar
Í Vesturhúsum bjó Magnús Guðmundsson, brautryðjandi í notkun fiskilínu sem veiðarfæri á eyjamiðum. Magnús var fæddur 27. júni 1872 og hóf 12 ára sinn sjómennskuferil árið 1884, á árabát sem hálfdrættingur, þ.e. á hálfum hlut. 18 ára gamall var hann orðinn formaður og réri sem slíkur í 30 ár allt til ársins 1921, er hann lét af sjómennsku. 10. apríl árið 1897 tók Magnús fyrstur manna að einhverju gagni að nota fiskilínu, sem hann hafði kynnst á sumarveiðum á Austfjörðum. Ýmsir hleypidómar voru uppi í Eyjum gegn þessari nýju veiðiaðferð, sem var m.a. ekki talin henta vegna hraunbotns og sterkra strauma við eyjar, en Magnús sýndi fram á, hvernig unnt væri að stunda línuveiðar með góðum árangri. Allir bátar hófu nú veiðar á línu sem skilaði undraverðum vexti í útvegi Eyjamanna. Afli stórjókst og fólk flykktist til Eyja í þá auknu búsæld sem spurðist út til nærliggjandi sveita.
Vélbátaútgerð og þorskanet
Í kjölfar nýrrar veiðitækni voru framundan enn stórstígari breytingar í fiskveiðum eyjaskeggja, þegar vélbátaútgerð hófst í Eyjum skömmu eftir aldamótin. Magnús á Vesturhúsum tók þátt í þeirri framrás íslensks sjávarútvegs frá upphafi, en hann eignaðist sinn fyrsta vélbát árið 1907. Með vélbátaútgerð komu t.d. þorsknetaveiðar árið 1916, þar sem Magnús var einnig brautryðjandi ásamt tveimur öðrum skipstjórum. Magnús lést 24. apríl 1955.
Upphafsmaður kvikmyndasýninga
Magnús Eiríksson frá Vesturhúsum, var fæddur 9. febrúar 1860 og lést 15. apríl 1917. Magnús opnaði fyrstur manna sýn eyjaskeggja inn í heim kvikmyndanna ásamt Sveinbirni Jónssyni frá Dölum. Þeir félagar komu með kvikmyndavél frá Ameríku til Eyja ásamt filmum og sýndu í Gúttó gegn gjaldi árið 1911 eða 1912. Sýningarnar voru slík opinberun fyrir sýningagesti, að umfjöllunarefnið fylgdu þeim áratugum saman.
Ekki varð langt framhald af þessum frumherjasýningum á kvikmyndum í Eyjum, en þær voru endurvaktar nokkrum árum síðar og urðu svo stór þáttur í skemmtanahaldi eyjabúa langt fram eftir 20. öldinni.
Fyrsta dráttarvélin og mjaltarvél
Andi nýbreytni og frumkvöðlastarfs var ekki aðeins tengdur sjávarútvegi og afþreyingu á Vesturhúsum. Árið 1928 kom ungur búfræðingur til Eyja og var fljótlega ráðinn til starfa af Búnaðarfélagi Vestmannaeyja. Helgi Benónýsson hét maðurinn og atvik höguðu því svo, að hann kynntist heimasætunni í Vesturhúsum, giftist henni, flutti inn á heimilið og var síðar kenndur við staðinn. Eitt fyrsta verk hans var að kaupa fyrstu dráttarvélina til Eyja í samvinnu við Búnaðarfélagið, en slíkt tæki hafði verið prófað skömmu áður til þess að tæta nokkra hektara lands. Fleiri landbúnaðartæki fylgdu í kjölfarið s.s. mjaltarvél, sem einnig var sú fyrsta í Eyjum og kom á breytingum í dreifingu mjólkur úr brúsum í glerflöskur. Helgi Benónýsson vann að ræktunarmálum næstu áratugina, en hann kom víðar við í atvinnulífi eyjaskeggja s.s. í útgerð og fjallaði m.a. um það í bók sinni, Fjörutíu ár í Eyjum, sem gefin var út árið 1975.
Vesturhús voru rifin skömmu fyrir Heimaeyjargos 1973, en nú stendur nýbygging í jaðri nýja hraunsins, nálægt þar sem íbúðarhús vestri bæjarhúsa stóð.