Brjánslækur á Barðaströnd

Flókatóftir. Mynd Minjastofnun Íslands.

Brjánslækur er fornt höfuðból og kirkjustaður á Barðaströnd á sunnanverðum Vestfjörðum. Brjánslækur stendur við mynni Vatnsfjarðar og er ferjustaður ferjunnar Baldurs sem siglir milli Stykkishólms og Barðastrandar með viðkomu í Flatey á Breiðafirði. 

Flókatóftir

Í landi Brjánslækjar eru friðaðar fornar tóftir sem kallast Flókatóftir og eru taldar vera frá því um 865 þegar Hrafna-Flóki Vilgerðarson hafði vetursetu á Barðaströnd.

Ættfaðir Briemaranna

Á 18. öld bjuggu hér séra Guðbrandur Sigurðsson (1735-1779) og kona hans Sigríður Jónsdóttir (1747-1835). Þau áttu soninn Gunnlaug (1773-1834) sem var sex ára þegar faðir hans hrapaði fyrir björg og lést. Var Gunnlaugur þá sendur í fóstur til séra Björns Halldórssonar  (1724-1794) í Sauðlauksdal og konu hans Rannveigar Ólafsdóttur, systur Eggerts Ólafssonar (1726-1768) skálds og náttúrufræðings. Aðeins 15 ára gamall sigldi Gunnlaugur til Kaupmannahafnar til að stunda nám í Det Kongelige Maler, Bildhugger og Bygnings-Akademie, samhliða Bertel Thorvaldsen (1770-1844)myndhöggvara. Sökum erfiðra efnahagslegra aðstæðna í Evrópu eftir Napóleonsstyrjaldirnar gaf Gunnlaugur listaferilinn upp á bátinn og lauk námi í lögfræði. Gunnlaugur kvæntist Valgerði Árnadóttur (1779-1872) árið 1800 og bjuggu þau lengst af á Grund í Eyjafirði þar sem Gunnlaugur starfaði sem sýslumaður Eyfirðinga. Afkomendur Gunnlaugs og Valgerðar tóku upp ættarnafnið Briem sem leitt er af bæjarnafninu Brjánslækur.

Skildu eftir svar