Eldfell í Vestmannaeyjum
Eldfell varð til í Heimaeyjargosinu 1973. Eftir að sprunga myndaðist örlaganóttina, 23. janúar, gaus á mörgum stöðum í henni, en fljótlega varð einn gígur ráðandi, og fellið hlóðst upp í kringum hann á nokkrum mánuðum. Breytti það ásýnd Heimaeyjar verulega og bæjarstæðisins, en bærinn hvílir nú undir tveimur kringlulöguðum eldfjöllum, hinu nýja Eldfelli og því forna, Helgafelli. Eldfell er rúmlega 200 metrar á hæð, og búið er að græða það að hluta til að hefta vikurfok, sem eyðilagði gler í húsum og lakk á bílum. Hægt er að ganga upp fellið og/ eða fara ofan í gíginn, og lengi var mjög stutt í hita og gufur, sem stigu víða upp úr fjallinu. Hluti gígsins brotnaði úr fellinu, þegar gos stóð sem hæst, og mjakaðist áfram með nýja hrauninu í áttina að hafnarmynninu. Fékk gíghlutinn nafnið Flakkarinn, en hann stöðvaðist loks og stendur skammt ofan og austan við Skansinn í u.þ.b. 200 m fjarlægð frá upprunalegum stað norðan í Eldfellinu. Guðni Hermansen, listmálari í Eyjum, hleypti hugarafli sínu á flug í myndverkinu, Hefnd Helgafells, sem hann málaði ári fyrir gos. Þar sýndi hann spúandi eldfjall, brunnið hraun og vikufláka, sem lögðu undir sig grasi gróin tún bænda á austurhluta Heimaeyjar. Ímyndun sem varð að veruleika!