Garðastræti 23 (Vaktarabærinn)

Þar sem nú er Garðastræti 23 stendur eitt fyrsta timburhúsið sem reist var í Grjótaþorpinu, kannski það fyrsta. Húsið, sem gengur undir nafninu Vaktarabærinn en hefur einnig verið kallað Skemman og Pakkhúsið, var byggt af Guðmyndi Gissurarsyni vaktara rétt fyrir miðja 19. öldina, líklega sem pakkhús við gamla Vaktarabærinn sem stóð þar sem Garðastræti 25 er nú. Sá bær var einn af „Grjótabæjunum“ svonefndu en það voru þeir bæir sem næst stóðu bænum Grjóta sem Grjótaþorpið er kennt við (sumar heimildir segja að Guðmundur hafi búið í Grjóta og að Grjóti hafi fengið á sig nafnið Vaktarabærinn vegna starfa Guðmundar). Tók Guðmundur  við vaktarastarfinu af föður sínum og gegndi því frá árinu 1830 til ársins 1865.

Næturverðir í Reykjavík

Vaktari var nafn á starfi sem upphaflega var búið til milli 1770 og 1780 í Reykjavík að frumkvæði forsvarsmanna Innréttinganna. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær fyrsti vaktarinn hóf störf en til er erindisbréf fyrir vaktara frá árinu 1778. Hlutverk vaktara var að ganga um götur bæjarins á kvöldin og á næturnar og fylgjast með því að allt væri með felldu. Gengur þeir með stundaglas, lukt og staf með göddóttum hnúð og á klukkutíma fresti sungu þeir „vaktaraversið“ til að láta vita að öllu væri óhætt. Vaktaraversin voru 12 að tölu, eitt fyrir hvern klukkutíma frá kl. átta að kveldi til  sjö að morgni. Ekki er ólíklegt að tilkoma hegningarhússins við Arnarhól hafi ýtt undir að farið var út í  að ráða vaktara því lítið eftirlit var með föngunum og nokkur brögð voru af því að þeir tækju mat ófrjálsri hendi frá fyrirtækjum og einstaklingum í bænum. Þá fylgdi fjölgun timurhúsa í bænum aukin brunahætta. Það var ekki fyrr en 1791 að Reykjavíkurkaupstaður réð næturvörð og segja má að með því hafi opinber lög- og brunagæsla hafist í höfuðstaðnum. Sá sem skipaður var í starfið hét Magnús Guðlaugsson, tómthúsmaður í Sjóbúð. Til að standa straum af kostnaði við þetta nýja starf var lagður skattur á alla húseigendur og miðaðist upphæð skattsins við lengd húsa þeirra. Það var ekki fyrr en árið 1803 að bæjarfógeti er skipaður í Reykjavík.

Læknirinn og tónskáldið

Í þessu húsi fæddist tónskáldið og læknirinn Sigvaldi Kaldalóns þann 13. janúar 1881. Sigvaldi var eitt ástsælasta tónskáld Íslendinga og hefur þjóðin leikið og sungið lög hans allt fram á þennan dag. Meðal þekkustu laga hans eru Hamraborgin, Ísland ögrum skorið, Ave maria, Nóttin var svo ágæt ein, Á Sprengisandi, Draumur hjarðsveinsins, Suðurnesjamenn, Erla, góða Erla og Svanasögur á heiði. Sigvaldi var sonur Stefáns Egilssonar múrara og Sesselju Sigvaldadóttur ljósmóður og bróðir Eggerts Stefánssonar (1890-1962) söngvara. Sigvaldi og Guðmundur Kamban rithöfundur og leikskáld (1888-1945) voru bræðrasynir.

Skildu eftir svar