Grenjaðarstaður í Suður-Þingeyjarsýslu
Grenjaðarstaður er fornt höfuðból og kirkjustaður í Aðaldal í Suður-Þingeyjarsýslu. Samkvæmt Landnámu var staðurinn landnámsjörð Grenjaðar Hrappssonar. Grenjaðarstaður var talið eitt af bestu brauðum landins og hér sátu löngum höfðingjar og merkir prestar. Hér bjó Kolbeinn Sighvatsson (1200-1238), sonur Sighvats Sturlusonar, en þeir feðgar féllu í Örlygsstaðabardaga 1238. Talið er að Kolbeinn sé grafinn hér en faðir hans og bræður í Sturlungareit á Munkaþverá í Eyjafirði.
Séra Sigurður Jónsson Arasonar biskups
Af merkum prestum sem sátu á Grenjaðarstað má nefna Sigurð Jónsson(1520-1595), yngsta son Jóns biskups Arasonar (1448-1550), en hann gerði meðal annars ítarlega skrá yfir eignir Hólastóls sem varðveist hefur. Fylgikona Sigurðar var Sesselja Pétursdóttir, dóttir Péturs Loftssonar í Stóradal í Eyjafirði og fyrrverandi sýslumanns í Dalasýslu og systir Ragnheiðar á rauðum sokkum. Ragnheiður var móðir Páls Jónssonar, betur þekktur sem Staðarhóls-Páll, en hann kvæntist Helgu Aradóttur dóttur Ara bróður Sigurðar.
Bærinn og safnið
Núverandi bær á Grenjaðarstað var reistur var árið 1864 og er einn af stærstu torfbæjum landsins, 775 fermetrar að stærð. Búið var í bænum til árins 1949 en frá 1958 hefur bærinn hýst byggðasafn.