Háin í Vestmannaeyjum
Oddur Pétursson, formaður í Vestmannaeyjum, faldi sig í Hánni í Tyrkjaráninu 1627 og tókst á þann hátt að komast undan þeim óþjóðalýð, sem herjaði á eyjaskeggja af mikilli grimmd. Frá fjallinu gat Oddur fylgst með hreyfingum ræningjanna niðri á láglendi Heimaeyjar og trúlega leitaði hann skjóls á mörgum stöðum í fjallinu þá þrjá sólarhringa, sem þeir dvöldu á Heimaey. Háin er reyndar auðgengin, sérstaklega að norðanverðu, og auðvelt að komast þar upp grasi gróna brekku. Eru sagnir um það, að Oddur Pétursson hafi m.a. nýtt sér reykinn frá Landakirkju, þegar hún var brennd 17. júlí og komist undan í skjóli hans. Björgunar Odds var minnst æ síðar í Eyjum með því að kenna hann við þann stað, þar sem hann fann skjól, og var hann kallaður Oddur á Hánni. Hann drukknaði 9 árum síðar, árið 1636, þegar 3 skip fórust við Vestmannaeyjar og 45 sjómenn drukknuðu.
Þótt Háin geymi minningar um voveiflegustu atburði í sögu Vestmannaeyja, þá varð hún þremur öldum síðar hápunktur gleði og fagnaðar, þegar eyjamenn fóru að halda upp á þrettándann. Í fjallinu og nágrenni þess eru eldar kveiktir og flugeldum skotið upp, þegar jólasveinar þramma með blysin sín niður á láglendið, þar sem mannfjöldinn bíður. Þetta er tilkomumikið sjónarspil, er bjarmar blysa og elda lýsa upp kolsvart skammdegið og kasta skuggum af Hánni inn í svartnættið!