Landakirkja í Vestmannaeyjum

Kristján Sigurðsson, Heimaklettur

Landakirkja er ein elsta steinkirkja landsins, byggð á árunum 1774– 1778 úr tilhöggnu móbergi úr Heimakletti.   Nokkrar kirkjur með þessu nafni höfðu verið byggðar áður, en Tyrkir brenndu þá fyrstu 1627.  Landakirkja stóð langt uppi á Heimaey, fjarri byggðarkjarnanum við höfnina, en er í dag í meira miðsvæðis með hús og götur í næsta nágrenni. Kirkjan hefur tekið allmiklum breytingum þær ríflega 2 aldir, sem hún hefur þjónað Eyjaskeggjum, en bygging núverandi kirkjustöpuls er sú veigamesta. Í eigu hennar eru ýmsir fágætir gripir. Önnur kirkjuklukkan var t.a.m. á meðal verðmæta, sem rænt var í Tyrkjaráninu, en komst aftur í hendur heimamanna 10 árum síðar. Hljómur þeirrar klukku geymir enn tóninn, sem barst eyrum þeirrar kynslóðar, sem upplifði mesta harmleik í sögu Vestmannaeyja.

Kirkjusiðir í Landakirkju voru í föstum skorðum fyrr á öldum. Var fólki skipað á bekki eftir virðingarstöðu þess í samfélaginu, bændur fremst og aftast lausamenn, vinnufólk og ógiftir. Lengi tíðkaðist að sætagjöld voru greidd, bændur sátu í kórnum og heldri konur innst í kirkjunni. Að lokinni messu voru kirkjugestum birtar alls kyns tilkynningar frá prestunum, hreppstjórum og sýslumönnum.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar