Skólavörðustígur 9

… „í tugthúsið“ er látnir glæpamenn og misgerðarmenn og þeir sem eru fullir, og sumir að óþörfu.

Benedikt Gröndal

Hegningarhúsið

Á lóð nr. 9 við Skólavörðustíg stendur hegningarhúsið, hlaðið steinhús sem byggt var árið 1872. Byggingarstjóri hússins var Páll Eyjólfsson gullsmiður. Eftir að tugthúsið (tukthúsið) við Arnarhól var tekið undir aðra starfsemi árið 1815 voru fangar annað hvort vistaðir hér og þar um bæinn, í „svartholinu“ uppi á lofti í Landsyfirréttarhúsinu, látnir taka út refsingu strax eða sendir til Danmerkur. Hegningarhúsið við Skóluvörðustíg var tekið í notkun árið 1874.

Fyrsti fanginn

Fyrsti fanginn sem hér var vistaður var 22 ára gamall maður, Guðlaugur Sigurðsson, sem afplánaði hér dóm frá 8. janúar 1874 til 15. desember 1875 fyrir hnupl. Guðlaugur þessi var fæddur í Reykjavík árið 1852 og árið 1872 var hann til heimilis í bænum Grjóta hjá móður sinni Sigrúnu Guðlaugsdóttur. Nánar má fræðast um þennan fyrsta fanga í hegningarhúsinu í bók Árna Óla Skuggsjá Reykjavíkur sem kom út árið 1961.

Dómshús og skrifstofur bæjarstórnar

Þrjár stofnanir hafa verið til húsa á efri hæð hússins, Bæjarþing Reykjavíkur, Landsyfirréttur og síðan Hæstiréttur til ársins 1947. Auk þess hélt Bæjarstjórn Reykjavíkur fundi sína í húsinu um áratuga skeið.

Hegningrhúsinu lokað

Þann 1. júní 2016 var Hegningarhúsinu lokað og þegar þetta er skrifað (febrúar 2017) hefur engin ákvörðun verið tekin um framtíð hússins.

 

Skildu eftir svar