Hekla

Hekla er 1491 metra hár og um 7000 ára gamall eldhryggur í Rangárvallasýslu sem liggur á mörkum brotabeltis og gosbeltis. Fjallið er oft kallað „drotting íslenskra eldfjalla“. Á öldum áður var því trúað víða um heim að Hekla væri inngangurinn að Helvíti.

Virk eldstöð

Hekla er virk eldstöð sem hefur gosið í kringum 20 sinnum á sögulegum tíma. Stærstu gosin voru 1104, 1300, 1693, 1766, 1845 og 1947. Síðustu gos í Heklu voru 1970, 1980, 1991 og 2000. Þótt hraunrennsli geti orðið mikið í Heklugosum er gjóskufall og flúormengun einn mesti skaðvaldur gosanna. Gjóskufall eyddi allri byggð í Þjórsárdal í gosinu 1104 og síðari tíma gos hafa einatt búið til stórar vikurauðnir með alvarlegum afleiðingum fyrir búskap víða um land. Vitað er að fín aska úr Heklugosum hefur borist alla leið til Asíu.

Gosið 1947

Eitt stærsta gos í Heklu á síðari tímum var gosið 1947. Gosið hófst á 7. tímanum að morgni 29. mars 1947 með snörpum jarðskjálfta. Gríðarlegur kraftur var í gosinu strax frá upphafi og er talið að gosmökkurinn hafi farið í 30 km hæð strax á fyrstu 10 mínútum gossins. Einstök mynd náðist af gosinu rétt 20 mínútum eftir að gosið hófst en hana tók Þorsteinn Oddsson frá bænum Heiði á Rangárvöllum (sjá grein). Gosið stóð í 13 mánuði og er talið að um 1 km2 af gosefnum hafi komið upp í gosinu. Einn maður lést í gosinu og tveir bæir fóru í eyði af völdum þess. Sá sem lést var Steinþór Sigurðsson náttúrufræðingur sem var við myndatökur á gossvæðinu.

Vöktun Heklu

Hekla er vandlega vöktuð af Veðurstofu Íslands í samstarfi við Háskóla Íslands eins og sjá má hér og hér.

Skoða vefmyndavél Mílu.

Skildu eftir svar