Hvítárnes á Kili

Hvítárnes er gróðurlendi við norðaustanvert Hvítárvatn á Kili sem orðið hefur til við framburð Fúlukvíslar, Tjarnár og Fróðár. Umhverfi Hvítárvatns er meðal fegurstu staða á hálendi Íslands og mest ljósmynduðu.

Fyrsta sæluhús F.Í.

Rétt sunnan við Hvitárnesið stendur sæluhús sem Ferðafélag Íslands byggð árið 1930 (sjá stóra mynd). Var þetta fyrsta sæluhúsið sem félagið reisti eftir stofnun þess árið 1927 og er húsið jafnan kennt við nesið þótt það standi ívið sunnar. Smíðina annaðist Jakob Thorarensen (1886-1972) skáld frá Fossi í Hrútafirði

Hvítárnesvofan

Í gegnum tíðina hefur ferðafólk greint frá einkennilegum hljóðum, jafnvel árásum, í Hvítárnesskálanum og minnist höfundur þessa pistils þess að hafa snemma morguns komið að hópi franskra ferðamanna sofandi úti undir beru lofti rétt við skálann. Gáfu Frakkarnir þá skýringu á svefnstað sínum að ekki hefði verið líft í skálanum vegna draugagangs. Fjölmargar aðrar sögur eru til um reimleika í skálanum í Hvítárnesi. Halldór Óli Gunnarsson skrifaði lokaritgerð í þjóðfræði um draugasögur úr Hvítarnesskála (2012). Í bók sinni um Kjöl segir hinn reyndi ferðagarpur Hallgrímur Jónasson að í öllum ferðum sínum í Hvítárnes hafi hann aldrei orðið var við neitt undarleg, utan kannski einu sinni. Þar með viðhélt hann þjóðsögunni um draugaganginn í Hvítárnesi.

Fornar tóftir

Fornar tóftir í nágrenni sæluhússins bera þess vitni að búið hefur verið í Hvítárnesi fyrr á öldum. Ekki eru til skriflegar heimildir um búsetu á þessum slóðum en Sigurður Þórarinsson (1912-1983) jarðfræðingur taldi að þarna hafi verið býli sem farið hafi í eyði í Heklugosinu 1104 (S. Þórarinsson. Heklueldar, 1968).

Kjalvegur hinn forni

Til forna var Kjölur fjölfarin leið milli Suðurlands og Norðurlands og lá kjalvegur hinn forni um Hvítárnesið. Greinir Sturlunga til dæmis frá ferðum heilla herflokka yfir Kjöl eins og í aðdraganda Örlygsstaðabardaga. Segja má að eftir hvarf Reynisstaðabræðra á Kili 1780 hafi ferðir yfir Kjöl að miklu leyti lagst af. Það var ekki fyrr en að danski fornleifafræðingurinn Daniel Bruun beitti sér fyrir því í kringum 1900 að Kjölur yrði varðaður að reglulegar ferðir hófust aftur yfir Kjöl.

Skildu eftir svar