Kolkuós í Skagafirði

Kolkuós er forn verslunarstaður í Skagafirði þar sem áin Kolka rennur til sjávar. Fyrr á öldum gekk áin undir nafninu Kolbeinsdalsá og ósinn Kolbeinsárós. 

Höfn Hólastóls

Talið er að Kolkuós, eða Kolbeinsárós, hafi verið aðalverslunarhöfn Skagfirðinga frá landnámsöld fram undir 1600 þegar Hofsós tók við sem helsti verslunarstaðurinn við Skagafjörð. Færð hafa verið fyrir því rök að Hólar hafi orðið fyrir valinu sem biskupsstóll vegna nálægðar við höfnina.

Fornleifarannsóknir

Fornleifarannsóknir hafa farið fram í Kolkuósi undir stjórn Ragnheiðar Traustadóttur fornleifafræðings. Samkvæmt rannsóknum á Kolkuósi eru elstu minjar í Kolkuósi frá því á 10. öld en flestar minjarnar eru frá því á 11. og 12. öld. Fundist hafa a.m.k. 15 búðir, margvísleg verkfæri, dýrabein og silfurpeningar. Flest bendir til þess að hér hafi verið um sumarbúðir að ræða eins og á Gásum í Eyjafirði enda voru siglingar milli Íslands og Evrópu einkum stundaðar yfir sumartímann á þessum tíma.

Skildu eftir svar