Landlyst í Vestmannaeyjum

Landlyst var fyrsta fæðingaheimili á Íslandi, byggt 1847 og 1848 af Sólveigu Pálsdóttur, skálda frá Kirkjubæ, og manni hennar Matthíasi Markússyni. Barnadauði hafði lengi verið viðvarandi í Eyjum og létust t.a.m. 7 af hverjum 10 ungabörnum úr ginklofa um 1840, sem var miklu hærra hlutfall en annarsstaðar á landinu. Veikin lagðist þungt á börnin, líkamar þeirra krepptust saman og afmynduðust og leiddi þau til dauða. Sólveig hafði numið hjúkrun í Danmörku, og í samstarfi hennar við danska lækninn, Peter Anton Schleisner, sem kom til Eyja 1847, tókst að draga verulega úr dauðsföllum á skömmum tíma. Ginklofinn eða öðru nafni stífkrampi varð til vegna sýkingar í gegnum naflasár, og var ráð hins danska læknis að bera á olíu og búa þannig um á meðan sárið gréri, að fyllsta hreinlætis væri gætt. Auk þess lagði hann áherslu á sérstakt mataræði og brjóstagjöf inni á fæðingastofu, þar sem unnt var að fylgja öllu þessu eftir. Landlyst var byggð við Strandveg og var bakhús við húsið Valhöll fram til ársins 2000, að það var endurbyggt, flutt á svæðið við Skansinn og geymir nú læknaminjasafn. Þess má geta, að Sólveig Pálsdóttir og maður hennar voru móðurforeldrar Ásgeirs Ásgeirssonar, fyrrverandi forseta Íslands.

Skildu eftir svar