Laufás í Eyjafirði
Laufás er forn kirkjustaður, bær og minjasafn í Þingeyjarsýslu. Talið er að elsti hluti bæjarins sem nú er í Laufási sé frá 16. öld en að stærstum hluta var hann byggður í tíð séra Björns Halldórssonar (1823-1882) sem þjónaði í Laufási frá 1853 til 1882. Núverandi kirkja í Laufási var byggð 1862-65 af Tryggva Gunnarssyni (1835-1917) trésmið, alþingismanni og bankastjóra en hann ólst upp í Laufási til 14 ára aldurs. Síðasti presturinn sem bjó í bænum var Þorvarður Þormar (1896-1970) en hann bjó hér til árins 1936. Þorvarður var faðir Halldórs Þormars, líffræðings og prófessors emeritus. Minjasafn Akureyrar á Laufás og rekur þar minjasafn.