Laufásvegur 7 (Þrúðvangur)

Ekkja Einars Zoëga veitingamanns og hóteleiganda, Margrét Zoëga, lét reisa húsið árið 1918/1919 og bjó hér ásamt dóttur sinni Valgerði og tengdasyni, Einari Benediktssyni, til ársins 1927. Húsið, sem hún nefndi Þrúðvang eftir ríki hins heiðna Þórs, var í alla staði mjög vandað og var útidyrahurðin t.d. útskorin af Ríkarði Jónssyni. Arkitekt og byggingarstjóri hússins var Jens Eyjólfsson byggingameistari

Um Margréti Zoëga

Margrét Zoëga (1853-1938), ekkja Einars Zoëga veitingamanns, var eigandi Hótels Reykjavíkur við Austurvöll eftir að maður hennar lést árið 1909. Hún var mikil kvenréttindakona og tók m.a. þátt í að undirbúa kosningarnar 1908 þegar konur buðu í fyrsta skipti fram til bæjarstjórnar. Margrét var þekkt fyrir að styðja við bakið á ungum listamönnum eins og sést glöggt á skreytingum á húsi hennar við Laufásveg. Hótel Reykjavík brann til kaldra kola aðfararnótt 24. apríl 1915, að lokinni brúðkaupsveislu systurdóttur Margrétar, Jósefínu Zoëga, en veislan var haldin í hótelinu fyrr um kvöldið. Hér má lesa blaðagrein um brunann sem byggir á frásögn Guðmundar Karlssonar brunavarðar.

Fjölnota hús

Þrúðvangur hefur verið heimili margra fjölskyldna en einnig hefur húsið verið lagt undir margvíslega aðra starfsemi. Um tíma fór smábarnakennsla fram í húsinu, þá var Tónlistarskólinn í Reykjavík með starfsemi í húsinu á árunum 1949-1962 og frá 1962 til 1989 notaði Menntaskólinn í Reykjavík húsið undir kennslustofur. Frá 1990 hefur húsið einvörðungu verið notað sem íbúðarhúsnæði.

Skildu eftir svar