Minnisvarði drukknaðra

Minnisvarði um þá, sem drukknað hafa við Vestmannaeyjar eða frá Eyjum, farist í fjöllum eða flugslysum var vígður á lóð Landakirkju 1951. Páll Oddgeirsson, verslunar- og útgerðarmaður í Eyjum, átti hugmyndina að varðanum og fylgdi henni eftir, en safnað var fyrir honum hjá bæjarbúum. Minnisvarðinn, sjómaður og skip hans, er eftir Guðmund Einarsson frá Miðdal og stendur hann andspænis anddyri kirkjunnar. Umhverfis varðann eru sjóbarðir blágrýtishnullingar með nöfnum þeirra látnu, fæðingar- og dánardægrum. Á sjómannadeginum ár hvert fylkjast bæjarbúar að minnisvarðanum við Landakirkju og eru viðstaddir athöfn, þegar blómsveigur er lagður að varðanum og þeim vottuð virðing, sem hlotið hafa vota gröf. Einar J. Gíslason í Betel stýrði þessari athöfn til fjölda ára og gaf henni ákveðinn helgiblæ, sem enn lifir. Eyjamenn leita huggunar við minnisvarðann við ýmis önnur tilefni, þegar sorgin ber að dyrum og látinna er minnst.

Nokkrum áratugum eftir að minnisvarðinn var vígður voru settir sæbarðir grjóthnullungar við hann með nöfnum þeirra sem farist hafa og týnst og ekki hvíla í vígðri mold.

Skildu eftir svar