Öskjuhlíð í Reykjavík

Öskjuhlíð er rúmlega 60 metra há stórgrýtt en gróðursæl hæð í Reykjavík, mynduð úr grágrýti sem rann úr eldstöðvum á Mosfellsheiði á síðari hluta ísaldar. Talið er að fyrir u.þ.b. 10 þúsund árum hafi Öskjuhlíðin verið eyja því sjávarbarið berg er greinilegt í rúmlega 40 metra hæð í hlíðinni. Öskjuhlíðin hefur í gegnum aldirnar gegnt margvíslegum hlutverkum fyrir íbúa í landámi Ingólfs.

Víkursel

Talið er að til forna hafi Reykjavíkurbærinn (Víkurbær) nýtt sér hlíðina til beitar og skógarhöggs og finna má heimildir frá 14. öld um Víkursel. Í suðvestanverðri Öskjuhlíð hafa fundist minjar um sel ásamt leifum af fjárbyrgi og hlöðnum stekkjum.

Beneventum

Í vestanverðri Öskjuhlíð er grasflöt og klettabelti þar sem heitir Beneventum. Þetta var samkomustaður skólapilta úr Lærða skólanum á 19. öld en hér réðu þeir gjarnan ráðum sínum. Talið er að hér hafi „pereatið,“ uppreisn skólapilta gegn Sveinbirni Egilssyni rektor þegar hann reyndi að þvingja þá í bindindisfélag árið 1850, verið undirbúið. Nemendur í Menntaskólanum við Hamrahlíð nefndu skólablað sitt eftir þessum stað og hér héldu þeir einnig busavígslur sínar í mörg ár

Samkomustaður Reykvíkinga

Öskjuhlíðin var strax á 19. öld orðin vinsælt útivistar- og samkomusvæði og hér héldu Reykvíkingar hátíðir langt fram á 20. öldina. Þegar Reykvíkingar héldu upp á 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1874 var haldin hátíð í Öskjuhlíð. Á hátíðina mætti sjálfur Kristján IX, konungur  Íslands og Danmerkur, en hann færði Íslendingum nýja stjórnarskrá í tilefni afmælisins, stjórnarskrá um „hin sérstaklegu málefni Íslands.“

Grjótnám vegna hafnargerðar

1913 hófst grjótnám norðvestanmegin í Öskjuhlíð í tengslum við hafnargerðina í Reykjavík og var grágrýtið flutt á járnbrautarvögnum niður að Reykjavíkurhöfn. Þótt hafnargerðinni að mestu verið lokið árið 1917 var járnbrautin í notkun allt til ársins 1928.  Keiluhöllin í Öskjuhlíð var reist í einni af þessum grjótnámum. Önnur eimreiðin sem notuð var við hafnargerðina, eimreiðin Pioner, er til sýnis í Árbæjarsafni.

Hernaðarmannvirki úr seinni heimsstyrjöld

Í seinni heimstyrjöldinni reistu Bretar og Bandaríkjamenn fjölda hernaðarmannvirkja í og við Öskjuhlíðina sem mörg hver tengdust flugvellinum í Vatnsmýrinni. Hér er um að ræða mannvirki eins og skotbyrgi, loftvarnarbyrgi, víggrafir, geymslur og bragga. Mörg þessara mannvirkja eru enn sjáanleg í suður- og vesturhlíðum Öskjuhlíðar.

Hitaveitugeymar

Á tímabilinu 1940-1966 reisti Reykjavíkurborg hér hitaveitugeyma sem síðan þá hafa verið eitt helsta kennileiti borgarinnar. Fyrstu sjö geymarnir voru rifnir árið 1985 en sex nýir geymar byggðir í staðinn. Árið 1991 var útsýnishús byggt ofan á geymana sem hýsti veitingastaðinn Perluna. Er húsið vinsæll útsýnisstaður ferðamanna.

Smella hér til að skoða götumynd á google.com

Skildu eftir svar