Prestasteinn í Vestmannaeyjum
Prestasteinn er hraunhóll ofarlega í núverandi byggð sunnan Landakirkjugarðs, skammt frá Fellavegi í hlíðum Helgafells. Kirkjusóknir voru í margar aldir tvær í Eyjum, Ofanleitissókn og Kirkjubæjarsókn, kirkja og prestur á hvorum stað, sem hjálpuðust að við messuhaldið hvor hjá öðrum. Eftir messu fylgdust prestarnir að upp að Prestasteini og áttu þar jafnvel stund saman áður en þeir kvöddust. Steinninn er u.þ.b. miðja vegu milli Ofanleitis og Kirkjubæjar og hefur staðist tímans tönn, en kirkjustaðirnir eru báðir horfnir, Kirkjubær undir hraun í Heimaeyjargosinu 1973 og Ofanleiti að nokkru undir flugbraut Eyjamanna.