Ræningjatangi í Vestmannaeyjum

nat.is/travelguide

Ræningjatangi er við austanverða Brimurð suður á Heimaey. Tanginn ber nafn sitt af ræningjum, sem komu þarna að landi fjarri byggð árið 1627. Landganga þeirra var upphafið að Tyrkjaráninu, harmleik, sem á sér enga hliðstæðu í sögu Vestmannaeyja. Á þremur sólarhringjum fóru þeir ránshendi um Heimaey, drápu, rændu, rupluðu og námu á brott fjölda eyjaskeggja og seldu í ánauð í Algeirsborg, Norður- Afríku.

Samkvæmt Reisubók séra Ólafs Egilssonar, prests á Ofanleiti,  tóku ræningjarnir 242 manns og drápu 36, en í ýmsum heimildum er talið, að þessar tölur séu full háar. Ýmislegt bendir til þess, að íbúafjöldinn í Eyjum árið 1627 hafi verið um 450 manns og nær helmingur íbúanna hafi lent í klóm sjóræningjanna frá Miðjarðarhafinu.

Skildu eftir svar