Ofanleiti í Vestmannaeyjum

Ein af fyrstu kirkjunum, sem reist var í Eyjum, var á Ofanleiti, ofan hrauns suður á Heimaey.  Ofanleiti var prestsetur í margar aldir og kirkjustaður um skeið með bænahús og kirkjugarði, en þar sat yfirleitt annar tveggja presta í Eyjum, en hinn bjó á Kirkjubæ, sem fór undir hraun í Heimaeyjargosinu 1973.  Þekktastur presta á Ofanleiti var eflaust séra Ólafur Egilsson.  Séra Ólafur var hnepptur í ánauð í Tyrkjaráninu 1627, en var leystur úr henni fljótlega til þess að safna fjármunum til lausnar Íslendingum úr „barbaríinu“. Ólafur hélt fótgangandi af stað frá Afríku og komst alla leið heim til Íslands ári síðar. Skrifaði prestur bók um ferðalag sitt, Reisubók séra Ólafs Egilssonar, sem er stórmerk heimild um atburð þennan og ferðalag hans um Evrópulönd. Bæir Ofanleitispresta eru löngu horfnir og allt umhverfi þeirra hefur gjörbreyst, sérstaklega eftir að flugbraut Eyjamanna var lengd í vestur eftir miðja seinustu öld. Í umróti, sem þeim framkvæmdum fylgdu, hvarf m.a. hinn forni grafreitur í nágrenni prestsetursins. Seinast bjó prestur að Ofanleiti í byrjun 7. áratugar á sl. öld í húsi, sem var rifið árið 1977.

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á já.is

Skildu eftir svar