Staður í Súgandafirði
Staður er bújörð og forn kirkjustaður í Staðardal í Súgandafirði. Talið er að fyrsta kirkjan hafi verið reist í Staðardal um 1100 en elsti máldagi kirkju á Stað sem varðveistu hefur er frá árinu 1324. Núverandi kirkja í Staðardal var byggð árið 1886. Í eigu kirkjunnar eru ýmsir merkilegir hlutir svo sem hluti af messuskrúða frá seinni hluta 17. aldar sem bæði faðir og afi Jóns Sigurðssonar forseta frá Hrafnseyri klæddust, klukkur frá fyrri hluta 18. aldar, predikunarstóll frá árinu 1763 og altarisklæði frá árinu 1773. Flestar kirkjurnar á Stað stóðu í gamla kirkjugarðinum 70-80 metra sunnan við núverandi kirkju. Prestssetrið var formlega flutt til Suðureyrar árið 1982 þegar staðurinn var seldur.
Séra Jón Torfason (1640-1719)
Frá 1661 til 1719 sat hér prestur að nafni Jón Torfason (1640-1719). Hann vann sér það til frægðar að skemma nokkur blöð úr einni af frumgerðum Landnámabókar en blöðin notaði hann til að binda inn kver. Sonarsonur Jóns, Jón Ólafsson (1705-1779) úr Grunnavík, gerðist skrifari hjá Árna Magnússyni handritasafnara og dvaldi hann mestan hluta ævi sinnar í Kaupmannahöfn. Jón var fyrirmynd Halldórs Laxness að persónunni Jóni Grindvicensis í Íslandsklukkunni en einnig skrifaði Jón Helgason prófessor doktorsritgerð um Jón úr Grunnavík.
Þingmannafjölskylda frá Stað
Ólafur Þ. Þórðarson, alþingismaður og skólastjóri, fæddist á Stað árið 1940. Hann var sonur Þórðar Halldórs Ágústs Ólafssonar bónda á Stað en hann var föðurbróðir Kjartans Ólafssonar alþingismanns. Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri-grænna og fyrrverandi oddviti Suðureyrarhrepps, er dóttir Þóru Þórðardóttur systur Ólafs Þ. Þórðarsonar. Lilja Rafney fæddist á Stað árið 1957.
Lesefni: Árbók Ferðafélags íslands (1999) eftir Kjartan Ólafsson.