Þingholtsstræti 14

Þetta hús byggði Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal skáld, náttúru- og norrænufræðingur árið 1881, þá kennari við Lærða skólann. Húsið teiknaði og reisti Helgi Helgason trésmiður og tónskáld, verðandi nágranni Benedikts í Þingholtsstrætinu.  Benedikt og eiginkona hans, Ingigerður Tómasdóttir Zoega, fluttu inn í húsið um sumarið en um haustið lést Ingigerður aðeins 36 ára gömul. Benedikt og Ingigerður eignuðust þrjár dætur en tvær þeirra voru látnar þegar þetta var. Jón Jensson, dómari og alþingismaður, bróðursonur Jóns  Sigurðssonar forseta, keypti húsið árið 1887 en árið 1904 eignaðist Bjarni Sæmundsson, náttúrufræðingur og kennari við Lærða skólann, húsið. Segja má að rannsóknir Bjarna í kjallara hússins hafi verið fyrsti vísirinn að Hafrannsóknastofnun.

 

Skildu eftir svar