Vegamót Evu Braun í Vestmannaeyjum

Ýmis fyrirmenni og höfðingjar hafa heimsótt Vestmannaeyjar í aldanna rás. Fyrstir voru þeir Hjalti Skeggjason og Gissur hvíti árið 1000, sérstakir sendiboðar sjálfs Noregskonungs! Fleiri fylgdu svo í kjölfar þeirra ekki síst mörgum öldum síðar í Heimaeyjargosinu 1973 og eftir að því lauk þegar stríður straumur forseta, ráðherra og annarra tiginna gesta lá til Eyja til þess að skoða ummerki gossins. 

Mismikið fór fyrir heimsóknum höfðingja til Eyja í fréttamiðlum enda endurspegluðu komur þeirra ólíka tíma í miðlun á fréttaefni. Það er ekki langt síðan að gamalt myndefni kom fyrir augu Íslendinga, sem þeim var áður óþekkt. Myndefnið var frá því rétt fyrir seinni heimsstyrjöld, frá árinu 1939, tekið af farþega á skemmtiferðaskipi sem kom til landsins frá Þýskalandi. Um borð voru velmegandi Þjóðverjar sem tóku land á nokkrum stöðum á siglingu skipsins meðfram stöndum Íslands. Einn áfangastaðurinn var Vestmannaeyjar og sýndi myndefnið, sem var stutt kvikmynd, brot úr mannlífinu á Heimaey, hýbýli eyjaskeggja og náttúru. Þýsku ferðalangarnir höfðu staldrað við hluta úr degi og eigandi myndefnisins hafði fangað ýmislegt sem fyrir augu bar og haft með sér til heimalands síns. 

Svo liðu u.þ.b. 80 ár og myndefnið rataði aftur á upptökustað með upplýsingum um eigandann, sem reyndist hafa verið kona, Eva Braun að nafni. Árið 1939 var Eva þessi Braun í vinfengi við valdamesta mann Þjóðverja og varð síðar eiginkona hans, kanslara Þýskalands, Adolfs Hitlers. Eva Braun hafði verið í hópi farþega á skemmtiferðaskipinu 1939 og það var hún sem festi myndefni á filmu þegar ferðafólkið staldraði daglangt á Heimaey. Í kvikmynd Evu má m.a. sjá þegar  Þjóðverjarnir koma á léttabátum að bryggju og halda þaðan upp í bæ.  Það er einkum mannfólkið á eyjunni sem vekur athygli Evu, sérstaklega börnin, sem horfa spyrjandi, undrandi og feimin á þessa framandi konu. Hún hefur staldrað víða við til þess að fanga áhugaverð sjónarhorn, s.s. hrörleg fiskhús eyjaskeggja, sem byggð voru á stöplum út í sjó, og á horni Kirkjuvegar og Hvítingavegar hefur hún og samferðarfólk hennar virt fyrir sér götur og hús. Þar beindi frú Braun myndavél sinni vestur Hvítingaveg og Brekastíg til austurs yfir bæinn eins og hann var árið 1939 í friðsæld og ró. Skömmu síðar logaði Evrópa í átökum seinni heimssyrjaldar, þar sem verðandi eiginmaður Evu Braun fór fremstur í flokki og skildi álfuna eftir í djúpum sárum sex árum síðar. 

Eva Braun kom aldrei aftur til Vestmannaeyja en hún átti minningarnar þaðan geymdar á filmu þar til hún svipti sig lífi með eiginmanni sínum í stríðslok, þegar ríki Nasismans var komið að fótum fram. Vegamótin á Heimaey, þar sem Eva Braun stóð nokkrum árum fyrr, lifa hins vegar enn í tiltölulega lítt breyttri mynd og gefa vegfarendum í dag svipað sjónarhorn og þegar verðandi kanslarafrú stóð þar árið 1939.


Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar