Vestmannaeyjar

Vestmannaeyjar eru eyjaklasi suður af Íslandi, samtals 15 sæbrattar eyjar og um 30 sker og drangar. Surtsey er syðst og yngst, en hún varð til í neðansjávargosi 1963- 1967. Elliðaey er nyrst, en aðeins 7-8 km eru til lands frá eyjunni. Stærst Vestmannaeyja er Heimaey, en hún er einnig sú eina sem er byggð. Aðrar eyjar eru auk fyrrnefndra Bjarnarey í austri og að vestan og sunnan Smáeyjar, þ.e. Hani, Hæna, Hrauney og Grasleysa og sunnar Álsey, Brandur, Suðurey, Hellisey, Geldingur, Súlnasker og Geirfuglasker. Árið 2016 voru íbúar 4272.

*

Fiskveiðar hafa frá upphafi byggðar verið aðalatvinnuvegur eyjaskeggja, en landbúnaður var einnig stundaður um aldir, einkum nautgripa- og sauðfjárrækt. Fugla– og eggjataka var og mikil búbót, enda milljónir fugla sem sóttu í björg eyjanna.

*

Tveir atburðir öðrum fremur standa uppúr í sögu Vestmannaeyja. Tyrkjaránið 1627 var mikil blóðtaka fyrir íbúana og er enn þeim ofarlega í huga tæplega 400 árum síðar. Þá umturnaði Heimaeyjargosið 1973 lífi Eyjamanna varanlega, eyðilagði hluta bæjarins, gerbreytti landslaginu og fækkaði íbúum til muna.

 

Skildu eftir svar