Dagverðarnes í Dölum
Dögurð Auðar Djúpúðgu
Dagverðarnes er eyðijörð á Skarðsströnd og samnefnt nes á milli Fellsstrandar og Skarðsstrandar í Dalasýslu. Nesið dregur nafn sitt af því að landnámskonan Auður djúpúðga var sögð hafa snætt þar dögurð er hún fór þarna um í leit að öndvegissúlum sínum.
Höfn Geirmundar heljarskinns?
Á Dagverðarnesi eru örnefnin „Höfn“ og „Írahöfn“ og gamlar tóftir sem taldar eru bera vott um að hér hafi verið lendingarstaður til forna. Bergsveinn Birgisson, norrænufræðingur, skáld og höfundur bókarinnar Leitin að svarta víkingnum, setur fram þá tilgátu að hér séu um að ræða leifar af starfsemi Geirmundarveldisins.
Kirkjan
Á nesinu er lítil kirkja frá árinu 1934. Hún var friðuð árið 2009.