Skarð á Skarðsströnd

Skarð á Skarðsströnd er sögufrægur bær og kirkjustaður í Dalasýslu í landnámi Geirmundar heljarskinns. Bergsveinn Birgisson, höfundur bókarinnar Leitin að svarta víkingnum, telur að bær Geirmundar hafi staðið nálægt þar sem núverandi bær á Skarði stendur.

Fornritin
Skarðsbók Jónsbókar

Þórður Narfason (d. 1308), sem talinn er hafa tekið Sturlungu saman í eitt rit, bjó á Skarði. Við Skarð eru einnig kenndar tvær frægar skinnbækur, Skarðsbók Jónsbókar, eitt glæsilegasta handrit sem varðveist hefur, og Skarðsbók postulasagna. Skarðsbók  postulasagna var í einkaeign til ársins 1965 en þá keyptu íslensku bankarnir handritið á uppboði Southby í London í þeim tilgangi að færa íslensku þjóðinni handritið að gjöf. Handritin eru varðveitt í Stofnun Árna Magnússonar í Reykjavík.

Þekktir ábúendur

Af þekktum ábúendum á Skarði má nefna Björn Þorleifsson hirðstjóra og konu hans Ólöfu ríku. Englendingar drápu Björn á Rifi árið 1467 og af því tilefni féllu hin fleygu orð Ólafar konu hans, „Eigi skal gráta Björn bónda heldur safna liði.“ Hér fæddist Torfi Bjarnason (1838-1915) skólastjóri bændaskólans í Ólafsdal.

Kirkjan

Núverandi kirkja á Skarði var byggð á rústum kirkju sem fauk 1910 en sú kirkja var smíðuð 1847-1848. Í kirkjunni er forláta altaristafla úr alabastri frá 15. öld sem talið er að Ólöf ríka hafi gefið í þáverandi kirkju. Þykir altaristaflan svo sérstök að hún var meðal sýningargripa á heimssýningunni í París árið 1910. Einnig er þar að finna predikunarstól frá 17. öld. Kirkjan var friðuð 1990.

Skildu eftir svar