Staðarhóll í Saurbæ

Staðarhóll er fornt höfuðból, kirkjustaður og eyðibýli í Saurbæ í Dalasýslu sem fyrir kristni hét Hóll. Samkvæmt Landnámu byggði Víga-Sturla fyrstur manna bæ á Staðarhóli en meðal þekktra ábúenda á Staðarhóli til forna voru Þorgils Oddason og Sturla Þórðarson, sagnaritari, sonarsonur Hvamm-Sturlu. Sturla bjó í 40 ár á Staðarhóli og var jarðsettur hér. Við Staðarhól er Staðarhólsbók, annað aðalhandrit Grágásar, kennd.

Síðasti næturstaður Kjartans Ólafssonar?

Laxdæla greinir frá því að Hóll hafi verið síðasti næturstaður Kjartans Ólafssonar áður en hann gekk á vit örlaga sinna í Svínadal þar sem Bolli Þorleiksson, fóstbróðir hans og frændi, sat fyrir honum ásamt bræðrum Guðrúnar Ósvífursdóttur. Var það Staðarhóll, sem hét Hóll fyrir kristni, eða einhver annar Hóll?

Staðarhóls-Páll og Helga

Á 16. öld bjuggu á Staðarhóli Páll Jónsson, betur þekktur sem Staðarhóls-Páll, sonur Jón Magnússonar ríka og Ragnheiðar á rauðum sokkum, og kona hans Helga Aradóttir, sonardóttir Jóns Arasonar biskups á Hólum. Dóttursonur þeirra, Magnús Björnsson (1595-1662), sýslumaður á Munkaþverá í Eyjafirði, stóð fyrir fyrstu galdrabrennunni á Íslandi á Melaeyrum í Svarfaðardal 1625. Þegar Magnús lést var hann einn af ríkustu mönnum landsins.

Skildu eftir svar