Svínafell í Öræfum
Svínafell er bær og fornt höfðingjasetur í Öræfasveit sem ein af helstu valdaættum Sturlungualdar, Svínfellingar, var kennd við. Í upphafi 13. aldar er talið að veldi Svínfellinga hafi teygt sig um gjörvallt Austurland og komu bræðurnir Oddur og Þorvarður Þórarinssynir af ætt Svínfellinga nokkuð við sögu í átökum Sturlungualdar.
Flosi Þórðarson
Meðal þekktra ábúenda í Svínafelli til forna voru Flosi Þórðarson, betur þekktur sem Brennu-Flosi vegna aðildar hans að Njálsbrennu og Ormur Ormsson, annar valdamesti maður landsins árið 1270 en hann drukknaði við Noregsstrendur sama ár. Flosi var kvæntur Ingunni dóttur Þóris Hámundarsonar heljarskinns frá Espihóli í Eyjafirði. Árni Þorláksson biskup fæddist í Svínafelli árið 1237 en hann var barnabarn Jóns Loftssonar í Odda. Bróðurdóttir Flosa, Hildigunnur Starkaðsdóttir, var eiginkona Höskuldar Hvítanessgoða sem Njálssynir og Kári Sölmundarson drápu að undirlagi Marðar Valgarðssonar. Eftir Njálsbrennu 1011 innsiglaði gifting Kára og Hildigunnar sættir þeirra Flosa og Kára. Flosi fórst í hafi í hárri elli.
Ferðamannaþjónusta
Í Svínafelli er ferðamannaþjónusta þar sem boðið er upp á tjaldstæði og gistingu í smáhýsum. Þar er og sundlaug sem gengur undir nafninu Flosalaug og er hún hituð upp með sorpbrennsluofni sem gengur undir nafninu Brennu-Flosi.