Þjófadalir á Kili

Þjófadalir eru fremur lítill, alldjúpur og nokkuð lokaður dalur austan við Langjökul í um 700 metra hæð yfir sjávarmáli. Áður fyrr náði nafnið yfir tvo dali en nú á dögum er aðeins átt við eystri dalinn þegar talað er um Þjófadali. Tindurinn Rauðkollur rís 1076 metra yfir sjávarmál norðvestamegin í dalnum en Þjófafellið (910 m) stendur suðaustanmegin í dalnum.  Þverfellið (810) lokar næstum dalnum í suður. Úr dalnum rennur Þjófadalakvísl sem síðan sameinast Fúlukvísl. Gullmura (Potentilla Crantzii) og brennisóley (Ranunculus acris) eru áberandi plöntur í Þjófadölum. 

Forn þjóðbraut

Talið er að hin forna þjóðbraut milli Suðurlands og Norðurlands yfir Kjöl hafi legið um Þjófadali (sjá einnig færsluna Hvítárnes á Kili). Telja ýmsir að Þjófadalir séu hinn forni Hvinverjadalur (Vinverjadalur í Sturlungu) þótt eflaust fleiri telji að Hvinverjadalur sé lægðin frá Hveravöllum að Dúfunefsfelli. Úr Þjófadölum liggur vinsæl gönguleið niður í Hvítarárnes og árið 1939 reisti Ferðafélag Íslands skála í Þjófadölum fyrir 10-12 manns. Ekkert er vitað með vissu um tilurð nafnsins Þjófadalir en einhverjar þjóðsögur eru til um þjófa sem sagðir eru hafa hafst við á þessu svæði.

Skildu eftir svar