Seljavallalaug undir Eyjafjöllum
Heitavatnslaug undir Eyjafjöllum
Seljavallalaug var byggð árið 1923 af Ungmennafélagi Eyfellinga, þar sem heitt vatn var að finna í Laugarárgili við rætur Eyjafjalla. Fellur laugin einstaklega vel inn í umhverfið með klettavegg á eina hlið og grasi grónar hlíðar á hinar, en gengið er að henni eftir einstigi nokkurn spöl innan við bæinn Seljavelli. Seljavallalaug var fyrsta laugin í landinu, þar sem fram fór skyldunám í sundi, en sundkennsla var þar stunduð fram undir 1960. Eyfellingar sóttu því vel syndir út til Vestmannaeyja á vertíð eins og þá var altítt, sem var ágætur undirbúningur fyrir störf við sjávarsíðuna.
Heilsulindin
Einn af þeim var Baldvin Skæringsson frá Rauðafelli, austan megin við Laugarárgil, en hann fór á sína fyrstu vertíð 1929, þá 14 ára gamall. Ekki reyndi á sundtökin hja Baldvini að þessu sinni, þvi hann fór að gera að fiski á svokölluðum fiskvinnslupöllum og snéri fárveikur um vorið heim í sveitina með lungna- og brjósthimnubólgu eftir vosbúð og þrældóm á pöllunum. Nú reyndist Seljavallalaug Baldvini sannkölluð heilsulind, því hann var látinn liggja í tjaldi við laugina allt sumarið, stundaði heit böð á hverjum degi, var úrskurðaður alheill að hausti og mætti galvaskur á næstu vertíð út í Eyjar eftir áramót 1930!