Bær í Miðdölum

Bær er jörð í Miðdölum í Dalasýslu sem nefnd er í Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar í tengslum við dráp Sturlu Sighvatssonar á sonum Þorvaldar Vatnsfirðings árið 1232.

Jón Dalaskáld

Í Bæ bjó Jón Sigurðsson (1685-1720), lögsagnaritari og Dalaskáld. Jón orti Tímarímu um Odd Sigurðsson lögmann (1681-1741), valdamesta manns á Íslandi á árunum 1708-1718, og móður hans Sigríði Hákonardóttur. Tímaríma var prentuð í Kaupmannahöfn 1772. Þá varð einnig landsþekkt kvæði hans Brullaupskvæði. Um Odd mál lesa í þessum pistli eftir Guðmund Andra Thorsson, í Örlagaþáttum Sverris Kristjánssonar sagnfræðings og í bók Björns Th. Björnssonar, Úr plógfari Gefjunar. Jón Dalaskáld var sonur Sigurðar Gíslasonar (1655-1688) bónda í Bæ og lögsagnara en hann hafði einnig viðurnefnið Dalaskáld. Þekkt er viðureign Sigurðar við Leirulækjar-Fúsa, föðurbróður Árna Magnússonar handritasafnara, sem lesa má um í þjóðsögum og ævintýrum Jóns Árnasonar. Sigurður drukknaði á Breiðafirði á leið undan jökli en Jón sonur hans drukknaði í Haukadalsá.

Vesturfarar

Árið 1848 fæddist hér Sigurður Jósúa, sonur Björns Jósúasonar og Kristínar  Bjarnadóttur. Sigurður flutti til Kanada árið 1874 og var hann í fyrsta hópnum sem settist að í Nýja-Íslandi. Nokkrum árum síðar flutti hann til Dakota en árið 1888 átti hann stóran þátt í að byggja upp íslenska nýlendu  í Albertaríki þar sem þjóðskáldið Stephan G. Stephansson settist að. Í Vesturheimi var Sigurður virkur í sveitarstjórnarmálum og í Dakota fékk hann t.d. löggilt fyrsta pósthúsið. Þá starfaði hann m.a. sem ljósmyndari og yfirsetumaður og tók m.a. á móti fyrsta íslenska barninu í Dakota. Einnig lét að hann að sér kveða í atvinnurekstri og stofnaði námafélag til að vinna kol. Af heilsufarsástæðum flutti Sigurður árið 1893 til Kyrrahafsstrandarinnar. Árið 1907 kom hann til Íslands í þeim tilgangi að stofna félag um kolavinnslu hér á landi og náði fyrirtækið nokkrum árangri í kolavinnslu í Dufansdal á Vestfjörðum. Sigurður lést í San Diego í Bandaríkjunum árið 1923.

Hreinn Friðfinnsson

Árið 1943 fæddist hér listamaðurinn Hreinn Friðfinnsson en hann var einn af frumkvöðlum hugmyndalistar á Íslandi. Hann var einn af stofnendum SÚM-hópsins um miðjan 7. áratug síðustu aldar en hópurinn markaði kaflaskil í íslenskri listasögu. Hreinn hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir list sína og í desember 2016 ákvað Alþingi að veita honum  heiðurslaun listamanna. Hreinn hefur lengst af búið og starfað í Amsterdam.

Smella hér til að skoða götumynd á google.com

Skildu eftir svar