Brimberg í Vestmannaeyjum
Brimberg, Strandvegur 37 var heimili Kristins R. Ólafssonar, útvarpsmanns og pistlahöfundar, sem fæddur er í Vestmannaeyjum 11. september 1952. Þótt Kristinn væri af bátasmiðum kominn, var hann lítt hneigður að bryggjubrölti eins og Ási í Bæ, hálfbróðir hans, en teiknari góður og orðfimur eins og Ási. Hann hélt ungur utan til náms til Spánar, festi þar ráð sitt og bjó langt fram á fullorðinsár. Kristinn R. varð þjóðþekktur, þegar rödd hans fór að berast yfir hafið í gegnum útvarpstæki landsmanna. Hann flutti fréttir og pistla um árabil á Ríkisútvarpinu og vakti athygli landsmanna fyrir tungutak sitt, ríkulegt mál, skondin orðatiltæki og orðasmíð, jafnvel í bundnu máli, sem oft varð landlæg. Lýsingar Kristins t.d. af knattspyrnuleikjum urðu sérstaklega eftirminnilegar og þóttu hefja íþróttina á áður óþekkt mið. Kristinn R. hefur þýtt nokkur úrvalsrit frá Spáni og sent frá sér skáldsögur.