Hilmisgata 1 í Vestmannaeyjum

Frægðarför frá Hilmisgötu

Hilmisgata 1 var heimili Helga Tómassonar, balletdansara, fyrstu 5 æviár hans. Helgi var fæddur í Reykjavík 8. október 1942 en fór eftir fæðingu með móður sinni til Eyja, þar sem fjölskyldan bjó. Við skilnað foreldra sinna flutti Helgi með móður sinni til Reykjavíkur.  Þar steig hann sín fyrstu spor í ballet, sem leiddu síðar leið hans til Kaupmannahafnar og þaðan skömmu síðar til New York.  Í Ameríku gat Helgi sér góðan orðstír og frægð sem dansari, lengst við New York City Ballet og síðar sem stjórnandi við San Francisco BalletKomur hans til Íslands vekja alltaf mikla athygli, en hann hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir list sína, s.s. fálkaorðu íslenska ríkisins.

Æskuminningar

Í ævisögu sinni, Helgi- Minningar Helga Tómassonar balletdansara, sem kom út árið 2017, minnist hann m.a. æskuáranna í Eyjum. Þar ber hæst minnig frá danssýningu þriggja dansara frá Danmörku, sem lögðu leið sína til Eyja vegna æskutengsla eins þeirra við staðinn og sýndu eyjaskeggjum list sína. Helgi var sóttur heim til sín í næsta hús í sýningarhléi af móður sinni og móðursystur og horfði sem dáleiddur á seinni hluta sýningarinnar. Þessi minning fylgdi Helga og kveikti í honum neista sem lifði innra með honum æ síðan.
Þá upplýsti Helgi í ævisögu sinni, að blóðfaðir hans væri Sveinn Guðmundsson, en hann var þekktur borgari í Eyjum frá fyrri hluta 20. aldar fram að Heimaeyjargosinu 1973 og var m.a. áberandi í félags- og listalífi bæjarins.
Æskuheimili Helga stendur enn við Hilmisgötu mikið breytt. Einni hæð hefur verið bætt við húsið auk annarra viðbygginga. Í einni Íslandsheimsókn sinni sem fullorðinn maður, lagði Helgi leið sína til æskustöðvanna og leitaði uppi sitt gamla heimili. Átti hann í fyrstu erfitt með að átta sig á húsi foreldra sinna og öllum breytingunum á því og þeim kennileitum, sem enn bjuggu í huga hans frá æskuárum. 

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar