Hnjúkur í Vestmannaeyjum
Hnjúkur við Brekastíg 20, efst til vinstri á mynd, var heimili Sigurbjörns Sveinssonar, rithöfundar, á 3. og 4. áratug síðustu aldar. Sigurbjörn var fæddur í Austur Húnavatnssýslu 19. október 1878, en gerðist barnakennari í Vestmannaeyjum á miðjum aldri árið 1919 og stundaði það starf á annan áratug allt til ársins 1932. Sigurbjörn varð einkum kunnur fyrir ritstörf sín, barna- og unglingabækur, leikrit og ljóð. Á meðal þekktustu verka hans eru Bernskan, Geislar og barnaleikritið Glókollur, en Sigurbjörn var einnig afkastamikill þýðandi, ljóðskáld og skákþrautasmiður. Af ljóðakveðskap hans má nefna ljóðið „Sumarmorgunn á Heimaey„, sem sungið er við lag Brynjúlfs Sigfússonar og oft nefnt „þjóðsöngur“ Eyjamanna! Fleiri hafa gert lög við þetta ljóð Sigurbjörns. Í túninu heima, bók Halldórs Kiljan Laxness, segir Nóbelsskáldið Bernskubækur Sigurbjörn handa “bókmenntasælkerum” og margar smásögur hans eigi “heima meðal gimsteina túngunnar”. Þegar Sigurbjörn varð sjötugur árið 1948 var hann gerður að heiðursborgara Vestmannaeyja og fékk einnig fálkaorðuna sem faðir íslenskra barna og unglingabókmennta. Sigurbjörn lést 2. febrúar 1950 og er legsteinn hans í Landakirkjugarði auðþekktur og einkennandi fyrir líf hans: Barn, sem situr í þungum þönkum með krosslagða fætur og bók í hendi.