Hof í Vestmannaeyjum

Eiríkur á Hofi, Heimaslóð

Hof, við Landagötu 25 í Vestmannaeyjum, var heimili Magnúsar Stefánssonar (Arnar Arnarsonar) skálds á 2. áratug seinustu aldar. Magnús var fæddur 12. desember 1884 í Norður Múlasýslu og stundaði nám, sjómennsku og kaupavinnu í sýslunni fram yfir tvítugt. Hann átti stuttan stans í Eyjafirði áður en hann hélt suður til náms í Hafnarfirði og loks Reykjavík. Magnús flutti til Vestmannaeyja árið 1911 og stundaði þar skrifstofu- og verslunarstörf fram til ársins 1919, er hann flutti til Hafnarfjarðar, þar sem hann bjó eftir það. Magnús hafði augljóslega tengst eyjunum traustum böndum því ári seinna var hann varamaður í knattspyrnuliði eyjamanna, sem tók þátt í Íslandsmóti öðru sinni árið  1920.  Í Eyjum varð Magnús sýsluskrifari hjá Karli Einarssyni sýslumanni og bjó í sýslumannssetrinu að Hofi, en húsið fór undir hraun í Heimaeyjargosinu 1973. Landagata lá austur á eyju, rétt norðan og austan við hús KFUMK, sem enn stendur á horni Vestmannabrautar og Helgafellsbrautar rétt við hraunjaðarinn. Í Eyjum orti Magnús mikið, m.a. ljóð, sem síðar urðu og eru enn fleyg á meðal Eyjaskeggja s.s. „Manstu okkar fyrsta fund“. Það var þó ekki fyrr en Magnús var farinn úr Eyjum, að kvæði eftir hann birtust í auknum mæli í blöðum og tímaritum, og hans höfuðverk, Illgresi, kom út árið 1924. Magnús lést í Hafnarfirði 25. júlí 1942.

Skildu eftir svar