Kvennabrekka í Dölum

Mynd Rögnvaldur Helgason

Kvennabrekka er bær og kirkjustaður í Miðdölum í Dalasýslu sem getið er um í Sturlungu. Hér fæddist Árni Magnússon (1663-1730) handritasafnari en hann ólst upp í Hvammi í Hvammssveit hjá móðurforeldrum sínum. Árið 2017 afhjúpaði forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, minnismerki um Árna Magnússon í Kvennabrekku.

Kvennabrekka um 1920
Theódóra Thoroddsen

Hér fæddist Theódóra Thoroddsen (1863-1954) skáldkona en hún var dóttir Guðmundar Einarssonar  (1816-1882) prests og alþingismanns og Katrínar Ólafsdóttur. Guðmundur og Katrín eignuðust 15 börn. Theódóra giftist Skúla Thoroddsen  (1859-1916), alþingismanni og ritstjóra, og eignaðist með honum 12 börn. Ásthildur systir hennar giftist athafnamanninum frá Bildudal, Pétri J. Thorsteinssyni (1845-1929). Ásthildur og Pétur eignuðust mörg börn, þar á meðal Katrínu sem giftist Eggerti Briem athafnamanni í Viðey og listamanninn Mugg (1891-1924) sem skreytti margar af þulum Theódóru. Pétur J. Thorsteinsson sendiherra var launsonur Katrínar og Hannesar Hafstein ráðherra. Meðal afkomenda Theódóru og Skúla eru Dagur Sigurðarson (1937-1994) skáld, hálfsystur Dags þær Ásdís og Halldóra Thoroddsen og systurdóttir Dags, Katrín Jakobsdóttur (1976) forsætisráðherra.

Kirkjan og Íslandströllið

Elstu heimildir um kirkju í Kvennabrekku eru frá 13. öld. Árið 1871 var Kvennabrekkuprestakall lagt niður og var þá þáverandi kirkja flutt að Sauðafelli. Árið 1919 var Sauðafellskirkja lögð niður og þá var núverandi kirkja reist í Kvennabrekku. Hér var Sigurður Vigfússon (1692-1752) Íslandströll grafinn en hann var sýslumaður í Dölum 1746-1753. Áður hafði Sigurður verið skólameistari í Hólaskóla.

Skildu eftir svar