Ljósheimar í Vestmannaeyjum

Davíð Steingrímsson, Heimaslóð

Ljósheimar við Hvítingaveg 6 voru æskuheimili Páls  Steingrímssonar, kvikmyndagerðarmanns, sem var fæddur í Vestmannaeyjum 25. júlí 1930.  Síðar byggði Páll eigið hús, sem stóð ofar í bænum við Sóleyjargötu 9. Hann var vinsæll kennari ungmenna í Eyjum á 6. og 7. áratugum 20. aldar og frumkvöðull í kennsluháttum.  Árið 1954 stofnaði hann Myndlistarskóla Vestmannaeyja, sem hann rak fram á 7. áratuginn og kenndi tugum eyjabúa myndlist í fullorðins- og barnadeildum.  Fór kennsla Páls fram í Barnaskólanum fyrstu árin og á vorin voru sýningar haldnar fyrir bæjarbúa.  Á miðjum aldri hélt Páll utan til New York í kvikmyndanám og sneri ekki aftur heim til Eyja til búsetu.  Gerðist hann í framhaldinu mikilvirkur kvikmyndagerðarmaður, þar sem heimildamyndir og dýramyndir urðu hans aðalumfjöllunarefni. Varð Páll þjóðkunnur fyrir myndir sínar, en hróður hans barst víða um lönd. Fékk hann fjölmörg verðlaun á innlendum sem alþjóðlegum vettangi, enda afkastamikill og gæddur fágætu, listrænu auga. Páll lést í Reykjavík 11. nóvember 2016.

Gísli Steingrímsson er einn yngri bræðra Páls. Árið 2018 kom út bókin Níu líf eftir Sigmund Erni Rúnarsson, þar sem hann lýsir ævintýralegu lífshlaupi Gísla og m.a. æsku hans og uppvexti. Gefur bókin einkar áhugaverða innsýn í líf bræðranna, áhættu- og ævintýraþrá þeirra, sem og í það samfélag í Eyjum á 4. og 5. áratug seinustu aldar, er þeir voru sprottnir upp úr.

Smelltu hér til þess að skoða götumynd á Já.is

Skildu eftir svar