Skuld í Vestmannaeyjum

Heimaslóð

Ljósmyndarinn

Skuld, Vestmannabraut 40, var æskuheimili Sigurgeirs Jónassonar, ljósmyndara, sem fæddur er í Vestmannaeyjum 19. september 1934. Sigurgeir var löngum kenndur við æskuheimili sitt, en flutti nafnið á núverandi hús sitt við Smáragötu 11, þegar gamla Skuld var rifin 1972. Húsið stóð við gatnamót Vestmannabrautar og Skólavegar, norðan megin. Sigurgeir heillaðist ungur að ljósmyndavélinni og varð þekktur af bæjarbúum fyrir að hafa hana ávallt um hálsinn. Myndaði hann mannlífið og náttúru í Eyjum til margra áratuga og fangaði á filmur fólk, viðburði, fuglalíf, báta, hús og allt, sem listrænt auga hans nam. Ævistarf Sigurgeirs telur milljónir ljósmynda, sem varðveita menningu Eyjaskeggja á 20. öldinni og bera hróður hans víða. Myndir hans birtust landsmönnum reglulega m.a. í Morgunblaðinu og náðu inn á síður erlendra tímarita. Sigurgeir hefur verið margverðlaunaður fyrir myndir sínar og varð ma.a. tilnefndur bæjarlistamaður Vestmannaeyja árið 2006.

Veiðimaðurinn

Ljósmyndun var ekki eina ástríða Sigurgeirs Jónassonar. Hann var einnig mikill lundaveiðimaður á meðan milljónir lunda settust að í björgum Vestmannaeyja yfir sumartímann og enn var við lýði að fanga flögrandi geldfugl í háf við klettabrúnir. Sigurgeir var í veiðimannafélagi Álseyjar sem hélt úti veiðum og eggjatínslu í eynni eins og tíðkaðst hafði á Heimaey og úteyjum um aldir. 26. júlí 1975 vann hann það afrek að veiða 920 fugla í Álsey á 6 klukkustundum sem var mesta lundaveiði er þekktist í Eyjum og veiðimet. Fyrra met hafði þá staðið frá 1924, en Sigurgeir fangaði að meðaltali um 150 lunda á klukkustund sem gerir 2- 3 fugla á mínútu! Að auki bar hann fenginn að lokinni veiði frá veiðistað upp brattar brekkur, reyndar með aðstoð annars manns. Met Sigurgeirs stendur enn í dag og verður sennilega aldrei slegið en það var mál manna í Eyjum að hann hefði ekki þurft að berja sér til hita þennan daginn!

Smelltu hér til þess að sjá götumynd á Já.is

Skildu eftir svar