Klettshellir í Vestmannaeyjum

Klettshellir blasir við, þegar staðið er nyrst á nýja hrauninu úr Eldfelli í nágrenni við Flakkarann og Skansinn og skammt frá, þar sem hvalurinn Keikó átti sér samastað í upphafi 21. aldar. Einnig sést hellirinn vel frá Hringskershafnargarðinum. Hellirinn er falleg náttúrusmíð og er í dag vinsæll komustaður skemmtibáta með ferðafólk. Klettshellir er hæstur að framanverðu, en þrengist er innar kemur, sædjúpur og auðveldur smábátum á siglingu. Hellisveggir og sjávardjúpið skarta ýmsum litbrigðum eftir ljósagangi náttúru og manna, og þegar slökkt er á vélarhljóðum bátaumferðar, verður þögnin djúp með undirslætti öldu og kvaki fugla í berginu. Ef leikið er á hljóðfæri, kastar Klettshellir hljómkviðum upp í klettahvelfingu, sem með sjávarilmi fyllir öll skilningarvit og gerir veruna í hellinum að sérstakri upplifun.

 

Skildu eftir svar