Klettsvík í Vestmannaeyjum

Klettsvík blasir við, þegar staðið er nyrst á nýja hrauninu á Heimaey eða við Hringskersgarð og horft yfir innsiglinguna að Vestmannaeyjahöfn. Víkin liggur að Ystakletti, einum af Norðurklettum Heimaeyjar, en þeir mynda klettabelti við innsiglinguna. Klettsvík varð heimsþekkt á 10. áratugi seinustu aldar, þegar háhyrningurinn Keikó var fluttur þangað frá Bandaríkjunum og komið fyrir í sjókví. Keikó hafði öðlast heimsfrægð eftir leik sinn í stórmyndinni, Free Willy, og unnið sér inn frelsi að margra mati til þess að hverfa aftur til upprunalegra heimkynna sinna við Ísland. Koma Keikós til Vestmannaeyja árið 1998 vakti mikla athygli víða um heim, og var fylgst með af áhuga, hvernig gengi að venja Keikó af samskiptum við mannskepnuna og koma honum í samband við aðra hvali. Gekk á ýmsu að temja háhyrninginn og átti hann til að leika þær listir, sem hann kunni best og hafði lært í dýragörðum vestanhafs, þegar hann varð var við mannaferðir í nágrenni Klettsvíkur, en farþegaskipið Herjólfur fór m.a. daglega þar hjá með forvitna farþega! Þessar kúnstir hvalsins voru litnar hornauga í þeirri viðleitni þjálfara hans af „afmennska“ dýrið! Ævintýri Keikos í Eyjum stóð yfir í u.þ.b. 4 ár, en því lauk með því að hann synti loks á haf út, lenti í firði einum í Noregi, þar sem hann endaði ævi sína skömmu síðar í lok árs 2003.

 

Skildu eftir svar