Staðarfell á Fellsströnd

Staðarfell er bær og kirkjustaður á Fellsströnd í Dalasýslu. Hér fæddist Þórður Gilsson, faðir Hvamm-Sturlu. Meðal þekktra ábúenda á Staðarfelli til forna má nefna Þorvald Ósvífursson, fyrsta eiginmann Hallgerðar Langbrókar.

Fyrsta ljósmæðraprófið 1768

Hér tók Rannveig Egilsdóttir fyrsta ljósmæðraprófið á Íslandi árið 1768 og varð þar með fyrsta menntaða ljósmóðurin hér á landi. Prófið samdi fyrsti landlæknir Íslands, Bjarni Pálsson, og samanstóð prófið af 30 spurningum. Prófið er enn til og það má sjá hér. Þetta kemur fram í bók Sigurjóns Jónssonar læknis sem skrifaði bókina Ljósmæðrafræðsla og ljósmæðrastétt á Íslandi sem kom út árið 1959.

Sýslumannssetur á 19. öld

Á Staðarfelli sátu löngum sýslumenn Dalamanna. Á fyrri hluta 19. aldar bjó hér sýslumaðurinn og fræðimaðurinn Bogi Benediktsson. Hér bjó einnig Hannes Hafstein veturinn 1886-1887. Bogi var kvæntur Jarþrúði Jónsdóttur og átti með henni fimm dætur. Ein þeirra, Jóhanna Soffía, giftist Jóni Péturssyni háyfirdómara frá Víðivöllum í Skagafirði en Sigríður systir hennar giftist bróður Jóns, séra Pétri Péturssyni. Pétur varð síðar biskup og  áttu þau Sigríður dótturina Þóru (1847-1917) sem Sigrún Pálsdóttir sagnfræðingur skrifaði um í bók sinni Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar sem kom út árið 2010. Þegar Jóhanna Soffía lést kvæntist Jón dóttur séra Friðriks Eggerz í Akureyjum á Breiðafirði og átti með henni synina Friðrik og Sturlu, betur þekktir sem Sturlubræður.

Húsmæðraskóli, búskapur og endurhæfing á 20. öld

Á tímabilinu 1927 til 1976 var hér rekinn  húsmæðraskóli en hjónin Magnús Friðriksson og Soffía Gestsdóttir gáfu jörðina undir skóla til minningar um Gest son þeirra sem lést af slysförum árið 1920. Frétt um slysið má lesa hér. Eftir 1980 rak SÁÁ endurhæfingarstöð hér en árið 2017 varð félagið að hætta þeirri starfsemi þegar Ríkiskaup auglýstu húseignirnar til sölu. Núverandi (2018) bóndi á Staðarfelli er Sveinn Gestsson, bróðir Svavars Gestssonar fyrrverandi alþingismanns, sendiherra og ráðherra.

Kirkjan

Kirkjan á Staðarfelli var byggð og vígð árið 1891. Hún er friðuð.

Skildu eftir svar