Beinakelda í Vestmannaeyjum

Beinakelda er svæði suðaustur af Klettsnefi, norðan við Urðir, þar sem mörg skip fórust vegna verra sjólags en á öðrum svæðum. 16. maí árið 1901 varð einhver stærsti skipskaði í eða við Beinakeldu, sem orðið hefur við Eyjar, þegar áttæringurinn Björgólfur sökk og 27 manns drukknuðu, 19 karlar og 8 konur. Skipið var að koma með fólk og varning frá fjölmörgum bæjum undan Eyjafjöllum og var nánast að komast í höfn, þegar það sökk vegna ofhleðslu. Varð fjöldi fólks vitni að því sem gerðist, t.a.m. frá Kirkjubæjum, en örvæntingarhróp frá skipinu heyrðust m.a. þangað. Bátar voru sjósettir í skyndi til hjálpar, en þegar þeir komu á slysstað var aðeins einn á kili Björgólfs, sem bjargað var. Mörg lík voru á floti í sjónum, og voru þau flutt í land. Skuggi sorgar hvíldi lengi yfir Eyjum og Eyjafjöllum, þar sem dauðastríð fólksins á Björgólfi, bjargarleysi þess sem og heimamanna svo að segja rétt við „bæjardyrnar“ gleymdust seint. Slysstaðurinn er væntanlega fast við strandlengjuna í dag, enn nær en 1901, vegna nýja hraunsins frá Heimaeyjargosinu 1973.

 

Skildu eftir svar