Mýrdalsjökull

Mýrdalsjökull er fjórði stærsti jökull landsins um 590 km2 að flatarmáli og 1480 metrar yfir sjávarmáli þar sem hann er hæstur. Úr jöklinum falla tvær jökulár, Jökulsá á Sólheimasandi og Múlakvísl.

Virk eldstöð

Þótt Mýrdalsjökull sé fallegur á að líta á heiðskýrum degi þá lúrir undir jökulhettunni hrikaleg eldstöð, Katla, sem er 30 km í þvermál og með 100 km2 öskju. Katla hefur gosið á 40-80 ára fresti eða 16 sinnum á sögulegum tíma. Auk venjulegra afleiðinga eldgosa eins og öskufalls þá fylgja gosum í Kötlu oft gríðarleg jökulhlaup sem eyra engu sem fyrir verður. Katla gaus síðast 1918 og má því búast við að farið sé að styttast í gos.

Flugslysið 1953

Þann 15. desember 1953 fórst bandarísk herflugvél af Neptune gerð í sunnanverðum Mýrdalsjökli í um 1000 metra hæð en flugvélin var á austurleið með níu manna áhöfn. Bandarísk leitarvél kom auga á flakið tveimur dögum síðar en það var ekki fyrr en á aðfangadag að áhöfn þyrlu frá bandaríska herliðinu í Keflavík komst að flakinu en slæmt veður og jökulsprungur höfðu gert björgunarleiðangrum erfitt fyrir. Hafði vélin brotnað í spón og dreifst yfir mörg hundruð fermetra svæði. Aðeins eitt lík fannst á staðnum. Haustið 1982 skilaði jökullinn því sem eftir var af flakinu.

Skildu eftir svar