Ofanleitishamar (Sigríðarslysið)

Ofanleitishamar

Þegar gengið er með Ofanleitishamrinum, vestur á Heimaey, má sjá minnismerki um sjóslys frá árinu 1928. Þar fyrir neðan í hömrunum strandaði lítill vélbátur, Sigríður, í febrúar 1928. Mannbjörg varð, en bátsverjar náðu að stökkva á syllu í miðju bjarginu áður en báturinn brotnaði í spón. Þeir voru þó hvergi hólpnir, fyrir neðan þá var ólgandi öldurót, ókleifur hamar að ofan og enginn vissi um afdrif þeirra. Í þessum aðstæðum tókst einum bátsverja, Jóni Vigfússyni frá Holti að klífa þverhníft bergið, komast til byggða í frosti og byl og sækja hjálp. Þótti þetta mikið afrek, en reyndir bjargmenn urðu frá að hverfa, þegar þeir lögðu síðar til atlögu við hamarinn við bestu aðstæður. Jón Vigfússon var sæmdur heiðursmerki Carnegie-orðunnar fyrir einstakt þrekvirki.

Skildu eftir svar