Víðivellir í Skagafirði

Víðivellir eru bær, fornt höfuðból og kirkjustaður í Blönduhlíð í Skagafirði en síðasta kirkjan á Víðivöllum var aflögð árið 1765. Í landi Víðivalla stóð bærinn Örlygsstaðir en þar fór fram einn fjölmennasti bardagi Sturlungualdar þann 21. ágúst 1238. Í bardaganum féll Sighvatur Sturluson og margir synir hans. 750 árum síðar var afhjúpaður minnisvarði um Örlygsstaðabardaga í landi Víðivalla.

Síðasta aftakan í Skagafirði (18. öld)

Í Helluhólma í landi Víðivalla fór fram síðasta aftakan í Skagafirði árið 1790 (sumar heimildir segja 1789) og var þetta næstsíðasta aftakan á Íslandi. Þá var hálshöggvin kona að nafni Ingibjörg Jónsdóttir frá Hofstöðum sem hafði verið fundin sek um að fæða barn á laun og fyrirfara því. Með því að taka að sér böðulsstarfið kom sakamaðurinn Þorleifur Andrésson sjálfum sér hjá hýðingu. Á þessum tíma voru margir sýslumenn farnir að efast um refsiákvæði Stóradóms og reyndi sýslumaðurinn í þessu máli, Vigfús Hanson Scheving (1735-1817), að koma Ingibjörgu hjá aftöku en án árangurs. Vigfús var kvæntur Önnu systur Ólafs Stephensen  stiftamtmanns og meðal barna þeirra var Guðrún kona Magnúsar Stephensen. Á þessum tíma var Stephensensættin valdamesta ætt landsins.

Víðivallabræður (19. öld)

Bræðurnir Jón Pétursson yfirdómari og alþingismaður, Brynjólfur Pétursson Fjölnismaður og Pétur Pétursson biskup og fyrsti forstöðumaður Prestaskólans voru kenndir við bæinn og jafnan kallaðir Víðivallabræður. Foreldrar þeirra voru Pétur Pétursson, prófastur og kona hans Þóra Brynjólfsdóttir. Jón var tengdasonur séra Friðriks Eggertz í Akureyjum og faðir Sturlubræðra. Pétur átti Þóru með seinni konu sinni Sigríði Bogadóttur frá Staðarfelli í Dölum. Um Þóru þessa skrifaði Sigrún Pálsdóttir sagnfræðingur bókina Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar sem kom út árið 2010.

Skildu eftir svar